146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[14:29]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina frá hæstv. þingmanni. Ég vil taka strax fram að við höfum ekkert sérstaklega rætt það, hvorki á göngum né á fundum. Þetta er skrifað í stjórnarsáttmálann eins og fram kom. Ég hef sagt það í mínum flokki, og held áfram að segja það sem mér finnst, að það eru fjölmargar leiðir sem við getum farið til að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu.

Ég held að við eigum ekki að gera stórar, drastískar breytingar nema við sjáum fyrir okkur að þær muni verða til góðs. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Að þær muni þá skila meiru til samfélagsins, sterkari fiskstofnum og betri afkomu fyrir sjómenn og útgerð. Ég held að það sé alltaf lykillinn í því sem við ræðum. Ég ætla ekki að útiloka fyrir fram innköllun aflaheimilda á einhverju árabili og breytingu yfir í leigusamninga. Það þarf að leggja það á borðið fyrir okkur hvernig það mun líta út. Við þurfum að skoða það saman. En ég held að það sé svo margt í fiskveiðistjórnarkerfinu sem við getum þó farið yfir og náð sátt um til þess að ná almennt betri sátt um kerfið.

Við vitum að það er ekki almenn sátt um kerfið. Við þurfum að ná henni í hús. Ég held að henni verði fyrst og fremst náð með því að við í þessu húsi séum samtaka um að ná þeirri sátt. Ég held að við getum ekki verið að ræða fiskveiðistjórnarkerfið eins og í boxhring, að það sé hver í sínu horni og að enginn ætli að gefa neitt eftir og allir vilji eiga rothöggið. Ég held að við þurfum að geta náð saman um leið sem er farsæl fyrir okkur og gefur frið um kerfið til lengri tíma. Ég held að það sé málið, ekki að það sé spurning um hvað ég vil heldur hvernig við náum þessu saman, við öll hérna í þinginu. Ég hef trú á því að það sé hægt.