146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[14:55]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef ég skildi hv. þingmann rétt er hann nokkuð hrifinn af þessu frumvarpi. Það er svokölluð útboðsleið með þeim tilgangi að lögmál markaðarins ráði yfir nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar. En í greinargerð með þessu frumvarpi segir að í útfærslu uppboðsleiðarinnar skuli setja reglur sem taki tillit til byggðasjónarmiða, komi í veg fyrir samþjöppun — það á væntanlega enn þá að hafa sama þakið — og virði sérstöðu minni útgerða. Hvaða markaður er þetta?

Þetta er auðvitað enginn markaður. Mér finnst kannski undarlegast að hv. þingmaður nefndi ekki mikilvægi þess að við værum með sjálfbæran sjávarútveg

Þetta er hvergi notað, þessi uppboðsleið eða útboðsleið eða tilboðsleið, nema að örlitlu leyti í Færeyjum og hún er mjög umdeild. Eru menn virkilega tilbúnir til þess að taka svona áhættu sem menn kalla markaðsleið og breyta verulega kerfi sem er sjálfbært, með mestu framlegð í öllum heiminum, arðbær, gefur þjóðinni miklar tekjur? Menn kom hér og eru tilbúnir með frumvarp af þessu tagi og ætla að rústa kerfinu af því að þeir telja það hugsanlega réttlátara. Þetta verður auðvitað aldrei réttlátt. Einhver uppboðsleið þar sem þeir geta einir keypt sem hafa aðgang að lánsfé verður aldrei réttlát. Hvernig eiga þeir að fara í uppboð? Við vitum ekki einu sinni hvort það verði loðnuvertíð eða síldarvertíð á næsta ári. Þetta er fullkomlega vanhugsað að mínu viti. (Forseti hringir.) Hvernig ætlar hv. þingmaður að svara þessu?