146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[15:05]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Þegar maður skoðar frumvarp þetta, eins og hefur kannski komið fram í umræðunum áður, þá á ég mjög erfitt með að átta mig á þeirri markaðsleið sem er verið að tala um. Ég sé ekki hvernig um geti verið að ræða einhvern markað þegar enn er bundið með hámarki á eignarhluta hvers og eins, taka þarf tillit til byggðasjónarmiða og virða sérstöðu minni útgerða.

Þetta er ekki markaðsleið í mínum huga. Þetta er bara tilfærsla sem mér sýnist í fljótu bragði leiða einfaldlega til þess að hugsanlega verði enn meiri samþjöppun, algerlega óvíst hvort hærra verð fáist fyrir fiskinn í raun, a.m.k. ekki til lengri tíma litið, inn í ríkissjóð.

Ekki er búið að athuga hvaða afleiðingar það hefði fyrir þjóðina að breyta kerfinu með þessum hætti. Hvaða áhrif mun þetta hafa á vinnsluna og byggðirnar umfram það sem nú þegar er orðið? Það vantar allar rannsóknir og umfjöllun.

Við búum hins vegar við kerfi, sem á sér auðvitað sögu, sem hefur reynst okkur alveg ótrúlega vel. Eftir 1983 þegar við fórum úr því að vera með frjálsar veiðar í takmarkaðri auðlind sem skapaði offjárfestingu, slæma nýtingu á afurðunum, minni sérþekkingu, fleiri að veiða en áttu erindi til, til hvers leiddi það? Hér voru eilífar gengisfellingar, með tilheyrandi kjaraskerðingu, til þess að við gætum enn þá selt fisk út og fengið gjaldeyri. Þetta snerist allt um gjaldeyri. Sem betur fer áttuðu menn sig á því að þessar frjálsu veiðar í takmarkaðri auðlind gengu ekki miklu lengur. Við gátum ekki haldið áfram í slíku stöðnunartímabili eins og var alveg frá 1970 til eiginlega má segja 1990. Við eltum skottið á okkur. Við vorum með 130% verðbólgu. Eilíflega að fella gengið til þess eins að geta aflað gjaldeyris.

Hverjir báru kjaraskerðinguna? Allur almenningur í landinu.

Við fórum í kvótakerfið, aflamarkskerfið. Þá var okkur auðvitað vandi á höndum. Hverjir áttu að fá hlutdeild í heildaraflanum á hverjum tíma? Farið var í mikla lögfræðivinnu í kringum það. Menn muna það hér, kannski þeir allra elstu, og voru þá ef til vill með í þessu. Jú, menn komust að því að þeir einir gætu fengið úthlutað þessari hlutdeild sem hefðu nýtt auðlindina. Enda réttur þeirra varinn af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þannig verður þetta til, til upplýsingar fyrir þá sem hafa ekki velt þessu mikið fyrir sér. Þannig verður þetta til, að viðkomandi fá hlutdeild í heildaraflanum.

Síðan er stigið stóra framfaraskrefið til aukinnar hagræðingar, þannig að hér yrði alvöruatvinnurekstur úr þessu með heimild til að framselja aflaheimildir. Framsalið var gífurlega mikilvægt til að ná hagræðingu. Við verðum bara að viðurkenna það, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þannig náðist ótrúleg hagkvæmni. En við þetta, þegar aflaheimildirnar færast þá á færri hendur en áður, varð ótti margra stjórnmálamanna við það að við þær aðstæður myndaðist einhver beinn eignarréttur útgerðarinnar á auðlindinni, sem menn þurftu auðvitað engar áhyggjur að hafa af að mínu viti. Það myndast enginn beinn eignarréttur með þessum hætti þótt menn hafi rétt til nýtingar. Og þá setja menn inn í lögin 1990, um stjórn fiskveiða, til að tryggja það með öruggum hætti, að þeir sem höfðu aflahlutdeild og aflaheimildir myndu ekki eignast fiskinn með beinum eignarrétti. Þess vegna er þetta orðað með þeim hætti: Þetta er sameign þjóðarinnar.

Hins vegar myndast ekki heldur beinn eignarréttur með þessum hætti til þjóðarinnar. Þjóðin hefur enga kennitölu, þjóðin getur ekki verið aðili að máli. En bara þetta eina ákvæði hefur að mínu viti gert alla umræðu um stjórn fiskveiða kolranga og verið á villigötum alveg frá þeim tíma. Bara með svona einu ákvæði virkar það mjög huglægt að arður af auðlindinni, auðlindum þjóðarinnar, fari til einhverra annarra. Að einhver annar geti haft hag af því, arð af því, er mjög erfitt. Þegar menn tala um að það þurfi að vera réttlæti og sátt í kerfinu — ég fullyrði hér í ræðustól að það mun aldrei verða sátt um stjórn fiskveiða eða fiskveiðikerfið meðan einhver hefur arð af fjárfestingu sinni í greininni. Því að sá arður er af eigninni okkar.

Upphaflega átti að verða sátt um auðlindina, um fiskveiðistjórnarkerfið, með því að leggja á veiðigjald. Svo var það gert. Allt á vakt Sjálfstæðisflokksins. Það var gert. Hvað gerist þá? Enn þá er einhvers staðar hagnaður, einhvers staðar er arðsemi. Þá er víglínan bara færð til. Og hvað gerist svo? Jú, það er sett sérstakt veiðigjald. Á allt kerfið. Alla verðmætasköpun sem verður alveg þar til fiskurinn er kominn ofan í maga manns. Miklu meira en af auðlindinni sem slíkri, bara af öllu kerfinu í kringum þetta.

Bíddu, síðan gerist það að arður er samt einhvers staðar. Hagræðingin er svo mikil. Þá verður kerfið bara alltaf óréttlátt. Það eru einhverjir menn að hagnast á auðlindinni minni. Bara af þessum ástæðum verður aldrei sátt um þetta kerfi.

En það sem við stjórnmálamenn þurfum auðvitað að hugsa um eru heildarhagsmunirnir, þjóðarhagsmunirnir. Ekki hvort einhver einn eða tveir eða þrír eða einhver sex fyrirtæki nái 6, 10 eða 12% arði eiginfjár í þeim fyrirtækjum. Sem er ekki einu sinni stórkostlegt. Og það við bestu aðstæður. Sá arður verður ekki á næstu árum. Þetta er bara veruleiki sem við stöndum frammi fyrir. Það verður ekki sátt.

En í núverandi kerfi, í bráðum 30 ár, hefur hagræðingin og arðurinn, og arður fyrir þjóðina ekki síst, verið mjög vaxandi. Vegna þeirra sterku fyrirtækja sem við eigum í sjávarútvegi hefur skapast ýmiss konar tækniiðnaður og margs konar þjónusta við minni fyrirtæki. Hagkvæmni þjóðarinnar af þessu kerfi, sem er sjálfbært, og framleiðnin á hvern mann er með því besta sem gerist í heiminum, sama til hvaða atvinnugreinar er litið. Svo koma þingmenn hér í nafni réttlætis og jafnvel einhverra markaðslausna, sem er nú algerlega fráleitt, og segja: Nú ætlum við að kollvarpa þessu kerfi. Nú ætlum við að búa til uppboðsleið. Og trúa því að algerlega óathuguðu máli að meiri arður yrði fyrir þjóðina af því. Að þjóðin fengi meiri arð af auðlindinni með þeim hætti. Án þess að geta með nokkrum hætti sýnt mér fram á það. Þá er þetta orðið eitthvert prinsipp, markaðslausn. Í fyrsta lagi virkar markaðurinn ekkert sérstaklega vel þegar um takmarkaðar auðlindir er að ræða. En þó er heilmikill markaður. Þessar aflaheimildir með framsalinu ganga kaupum og sölum. Ef ég tel mig geta rekið útgerð betur en þessi sem á aflaheimild og hann er tilbúinn að selja mér á ákveðnu verði, að ég geti rekið það betur, þá get ég keypt og farið í útgerð. Það er fullt af nýliðum. Hvað ætli Samherji hafi átt við upphaf kvótakerfisins? 5% af því sem hann á í dag. Þetta eru allt keyptar aflaheimildir. Meira og minna allar aflaheimildir Samherja. Og flestra fyrirtækja. Þetta er allt meira og minna keypt. Þetta var á markaði. Aflaheimildir eru á markaði. Mönnum geta þótt þær dýrar en þær munu auðvitað lækka þegar arðurinn verður minni og veiðar minni.

Ég mun aldrei samþykkja það að fara að kollvarpa kerfinu, þótt kannski sé með minni aðgerð hér, miðað við þau kosningaloforð sem sumir flokkar voru með, og ana út í fullkomna óvissu í atvinnugrein sem hefur auðvitað verið ótrúlega mikilvæg fyrir þjóðina alla tíð, atvinnugrein sem skapar beinar tekjur í ríkissjóð fyrir utan allar aðrar tekjur og allt sem henni fylgir. Að menn komi hingað og ætli að kollvarpa kerfinu og ana út í óvissuna. Mér finnst það alveg ótrúlegt ábyrgðarleysi. Ég er ekki að segja að núverandi kerfi sé fullkomið. Það getur vel verið að hægt sé að sníða einhverja annmarka af því. Við getum auðvitað áfram deilt endalaust um það hvað sé eðlileg skattlagning. Og ég segi alveg fullum fetum og hef alltaf sagt: Þeir sem hafa einhvers konar einkarétt á nýtingu takmarkaðrar auðlindar borgi eitthvað fyrir það.

En ég vil ekki leggja meira á útgerð en svo að menn séu tilbúnir að hætta fé sínu og það sé eðlileg arðsemi í greininni í heild. Því að ef við göngum of langt í því erum við að skjóta okkur í fótinn. Það sér hver maður. En þetta kerfi verður sjálfsagt aldrei fullkomið. Aldrei. En ég mun aldrei samþykkja það að ana út í óvissuna hvað þetta varðar.

Ég veit ekki til þess að nokkur þjóð eða nokkrir sérfræðingar á þessu sviði hafi talið það skynsamlegt að fara slíka leið. Ég vil frekar ræða þetta á þeim grunni hvort við getum haft hugsanlega einfaldari leið við skattheimtu í þessu, sanngjarnari leið hugsanlega. Það má skoða. Hvað á að vera hátt hlutfall af heildardæminu o.s.frv. Ég er opinn fyrir því öllu saman. En ég mun aldrei, aldrei samþykkja neitt svona lagað af því að ég geti ekki unnt einhverjum sem hefur tekið þá áhættu að hagnast hugsanlega þó að ég „eigi“ auðlindina.