146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[15:25]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Útboð eða uppboð mun engu breyta í þessu sambandi. Ég er ekkert að segja að það sé allt fullkomið, eins og ég sagði áðan í ræðu minni, í þessu kerfi. Hér er þó markaður. Það er bæði leigumarkaður og þú getur keypt. Þannig er veruleikinn. (SMc: Er það eðlilegt?) Já, það er eðlilegt. Það er eðlilegra en að bjóða þetta upp með einhverjum svona takmörkunum með þessum hætti. Þetta er allt eðlilegt. Vandamálið sem við glímum við er að við erum með takmarkaða auðlind. Það er vandinn sem við glímum við. Og við glímum líka við þann vanda að þeir sem hafa nýtt auðlindina eins og allar aðrar auðlindir hafa forgang til auðlindarinnar. Þú tekur það ekkert af mönnum og býður það upp. Það er ekki hægt. Það er samt fullt af fólki sem trúir því, kannski meira að segja hálf þjóðin sem trúir því að maður geti tekið af þeim sem hefur nýtt einhverja auðlind og boðið einhverjum öðrum hana. Það mun aldrei gerast og verður aldrei gert og dómstólar myndu aldrei samþykkja það.