146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[15:33]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar ég var að tala um aukna arðsemi til samfélagsins var ég að tala um það kerfi sem nú er, frá því kerfi sem áður var. Auðvitað fer arður til eigenda og arður til þjóðarinnar í beinum sköttum eftir því hversu vel gengur. Þetta er bara þannig tengt í dag, hve vel gengur í útgerðinni, í greininni.

Það var alveg rétt með fyrirhugaða hækkun árið 2013, sem varð svo aldrei af, að það átti að lækka af ástæðu. Við mátum það miðað við þær hugmyndir sem voru uppi hjá fráfarandi stjórn að það myndi hafa mjög slæmar afleiðingar fyrir stóran hluta útgerðarinnar. Við vissum alveg að sum fyrirtæki gætu það en menn mátu það svo að þetta hefði mjög slæmar afleiðingar fyrir aðrar útgerðir sem voru mikilvægar í mörgum byggðarlögum og að sá skaði yrði ekki tekinn til baka. Við getum deilt um það en það var ástæðan fyrir þessu.

Ég horfi ekki aðeins á beinar skattgreiðslur eins og veiðigjald heldur met ég það svo að það sé hagur allrar þjóðarinnar að hér séu til öflug útgerðarfyrirtæki sem geta staðið af sér hörmungarnar, aflabrestina, sem hafa alltaf orðið í sögunni og verða alltaf. Þessi arður vinnur einhvers staðar, hann býr til eitthvað. Menn hafa auðvitað greitt sér arð. Það var kannski 10% arður að meðaltali árið 2014, á besta ári útgerðarinnar fyrr og síðar. Einhver myndi segja: Bíddu, ef ég ætla að fara í slíkan áhætturekstur sem útgerð er finnst mér að ég eigi að fá meiri arð (Forseti hringir.) af fjármunum mínum en ef ég hefði þá inni í banka. Þetta er ekki óeðlilegur arður yfir heildina.