146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[15:36]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Það er rétt hjá hv. þm. Brynjari Níelssyni að við getum deilt um þetta og munum eflaust gera það oftar. Ég hefði hins vegar haldið að það væri hagur þjóðarinnar að arður greinarinnar dreifðist meira en í beinum arðgreiðslum til eigenda sjávarútvegsfyrirtækjanna. Ég hefði haldið það. Ég held að innst inni sé hv. þingmaður sammála því.

Þegar hann talar um skelfilegar afleiðingar veiðigjaldsins á útgerðarfyrirtækin þá hafa þær ekki verið verri en svo, eins og ég rakti áðan, að arðgreiðslur hafa hækkað úr 6,3 milljörðum í 13,5 milljarða til eigendanna sjálfra. Svona hafa arðgreiðslurnar verið að þróast. Ég átta mig ekki alveg á því þegar hann talar um hræðilegar afleiðingar veiðigjaldsins á greinina þegar greinin hefur verið að vaxa og dafna, ekki síst (Forseti hringir.) í arðgreiðslum til eigendanna en ekki til okkar hinna.