146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[15:38]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P):

Virðulegi forseti. Við Píratar styðjum heils hugar uppboð á aflaheimildum og höfum barist fyrir því frá því fyrir kosningar. — Eruð þið ekki til í að vera áfram í salnum, strákar? (Gripið fram í: Jú, jú, við erum hér.) Já. Mig langar til að vekja athygli á því og halda því til haga að það er enginn ágreiningur að mér vitandi um að á Íslandi sé aflamarkskerfi, þ.e. það sé einhver heildarkvóti ákvarðaður sem er skynsamlegt að veiða og að aðilar fái úthlutað tilteknum hluta, kvóta, af þessum heildarafla á hverju ári eins og verið hefur. Spurningin eins og komið hefur verið inn á er á hvaða kjörum þessi einokunarréttur fer til ákveðinna aðila. Hingað til í umræðunni hefur verið rætt um að deila megi um það hvernig skattlagningin eigi að vera og hvernig meta eigi það hvernig um 355 milljarða kr. arðgreiðslum á nokkrum árum til eigenda félaganna verði dreift til þjóðarinnar sem er siðferðislega réttmætur eigandi þessarar auðlindar.

Mér finnst svolítið undarlegt að menn, sérstaklega þeir sem eru yfirlýstir á hægri vængnum, skuli tala um það að þeir skilji ekki hvað er markaðsleið við það að bjóða aflaheimildir upp og tala eins og þá sé verið að afhenda þetta einhverjum hingað og þangað af handahófi. Ástæðan fyrir því að þetta er markaðsleið er að verðlagningin ákvarðast í samkeppni á markaði sem hefur það væntanlega í för með sér, fyrir þá sem hafa mjög miklar áhyggjur af sjálfbærni greinarinnar og gengi hennar og afrakstri, að aðilar sem stunda útgerð í landinu munu varla bjóða meira í kvótann en þeir treysta sér til að standa undir og græða á. Eins og markaðurinn virkar í samkeppni þá bjóða þeir eða þau sem sagt það mesta sem þeir eru tilbúnir að greiða fyrir þessi afnot þannig að þeir geri ráð fyrir því að græða eftir sem áður á verðinu. Markaðurinn, sem hv. þingmönnum er umhugað um sem og mér, ætti því að tryggja það að rekstur greinarinnar fari aldrei niður fyrir mörkin vegna þess að þeir borga ekki meira en þeir eru tilbúnir að greiða. Ég skil ekki hvernig þetta getur verið flókið. Það er einmitt verið að tala um mismunandi útfærslur á skattlagningu, hverju minni aðilar geti staðið undir og stærri aðilar og hvernig arðurinn eigi að greiðast. Þetta er einmitt útfærsla á skattlagningu sem tekur mið af markaðsaðstæðum hvers og eins og tekur mið af því að útgerðin greiði aldrei meira en hún ræður við en alltaf eins mikið og hún ræður við þannig að hún græði eftir sem áður en að þjóðin fái sinn réttmæta arð.

Ég frábið mér það eiginlega að menn fari alltaf að rugla því í þessa umræðu að aflamarkskerfið okkar sé svo frábært, að það tryggi út af fyrir sig sjálfbærni ef við höfum kvóta. Það er enginn ágreiningur um það. Ágreiningurinn er um það hversu mikið útgerðin á greiða fyrir þennan kvóta og hvernig það fyrirkomulag verður.

Ég sé ekki að neinn andmælandi hér hafi sýnt fram á að það að bjóða upp á kvótann á frjálsum markaði, þar sem útgerðin sjálf ræður í raun í frjálsri samkeppni hvað hún borgar mikið, muni verða útgerðinni að falli. Mér þætti forvitnilegt ef menn eru ekki farnir of langt ef þeir væru til í að veita andsvör þar sem þeir skýra þessa afstöðu sína nánar með sérstakri vísan til verðlagningar á frjálsum markaði.