146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[16:08]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér sýnist að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi dottað eitthvað í forsetastól áðan þegar ég flutti ræðuna, kannski rankað við sér öðru hvoru og heyrt eitt og eitt orð. Ég hélt því aldrei fram að einhverjar útgerðir ættu auðlindina, alls ekki. Ég sagði hins vegar að það verði ekki þannig á grundvelli þess að menn hafi nýtt þessa auðlind, við það myndast ákveðin eignarréttindi eða réttindi sem varin eru af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, og ég er ekki að tala um það sem yrði auka eða nýr stofn eða ný tegund af fiski. Ég var einfaldlega að segja að maður innkallar ekki á einu bretti aflaheimild eða hlutdeild útgerðar og býður það upp til annars. Það gerist ekki. Hv. þingmaðurinn hlýtur að vita af hverju menn fóru þá leið þegar var verið að koma kvótakerfinu á, miðað við veiðireynslu sem var málefnaleg og eðlileg og var ekki hjá komist þegar var verið að úthluta aflaheimildum á sínum tíma.

Annað atriði sem var mikill misskilningur hjá hv. þingmanni er að ég hafi haldið því fram að kvótakerfið og framsalið sé fullkomið og sé skýringin á öllu sem hafi gengið vel í dag. Ég er ekki að segja það heldur. Ég sagði að þetta hefði ýmsa annmarka. Þetta er ekki fullkomið. En áratugina á undan vorum við með óarðbæran sjávarútveg, offjárfestingu, lélega nýtingu afla. Þetta allt breytist með hinu breytta kerfi.

Það kann vel að vera að fleiri þættir hafi haft áhrif á þetta. Það er líka alltaf hægt að segja það sama og (Forseti hringir.) hv. þingmaður, að það hefði hvort eð er orðið, en það var búið að vera marga áratugi þar á undan og engin breyting.