146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[16:15]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Nú þykir mér sem svart sé orðið hvítt og upp sé orðið niður í þessum þingsal þar sem Samfylkingin, vinstri flokkur, leggur fram tillögu um að farið verði út í frjálsan markað í sjávarútvegi og hægri flokkur kemur og ver það sem mætti undir eðlilegum kringumstæðum kalla argasta kommúnisma beint niður í það að vera „politburo“ sem ákveði hverjir fá að veiða og hversu mikið.

Í ljósi þessa langar mig svolítið að vita, fyrst við erum að varpa öllum hefðbundnum reglum á hvolf, hvort hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon væri til í að hjálpa mér við að velta þeirri söguskýringu á hvolf að það hafi verið aflamarkskerfið og tilkoma þess sem hafi valdið öllum þeim jákvæðu breytingum sem hafa orðið á sjávarútvegi á undanförnum árum og áratugum. Ég hef nefnilega heyrt aðra söguskýringu sem mér þykir nokkuð líklegri, að það hafi hugsanlega verið aukið frjálsræði í viðskiptum við útlönd, ekki síst EES-samningurinn, sem hafi orðið til þess að skapa þessi auknu viðskipti sem hafi aukið möguleika á hagræðingu og tæknivæðingu og þar fram eftir götunum.