146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

sala ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum.

88. mál
[16:43]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvernig ég á að svara hv. þingmanni. (Gripið fram í: Fallega.) Það er stundum erfitt og stundum útilokað að eiga málefnalegar umræður við fólk sem hefur ekkert annað að gera en að snúa út úr og vera með upphrópanir. Ég var að biðja um að hægt væri að kortleggja eignir ríkisins, leggja mat á langtímaáætlun í innviðum. Svo fer hv. þingmaður að snúa út úr og segja að ég sé að leggja til útvistun á skattheimtu. Hvaða þvæludelluumræða er þetta? Ég neita að láta draga mig niður á þetta plan, hv. þingmaður.

Það sem ég er hreinlega að leggja til er að við fáum allar nauðsynlegar upplýsingar til að geta átt málefnalega og upplýsta umræðu um hvort og þá hvaða eignir ríkisins kemur til greina að selja. Ég nefndi sérstaklega bankana. Ég nefni sérstaklega að það eru líklegast 450 milljarðar bundnir í bönkunum á sama tíma og ríkissjóður er skuldum vafinn og þriðji hæsti útgjaldaliður ríkisins er vaxtagreiðslur. Ég segi: Bíddu, er ekki skynsamlegt samfélagsins vegna, til þess að við getum sinnt þeim verkefnum sem við eigum að vera að sinna m.a. í heilbrigðismálum, að nýta þá fjármuni betur, með skynsamlegri hætti, með því að losa um þá fjármuni, með því að selja hlut í öðrum hugsanlegum ríkisfyrirtækjum, lækka skuldir og/eða nota fjármunina til uppbyggingar í innviðum? Það er svo einfalt. Ég legg líka til að lagt verði mat á það hverjir möguleikar ríkisins eru til að standa í innviðafjárfestingu sem er nauðsynleg, m.a. með skatttekjum, (Forseti hringir.) án skuldsetningar og með skatttekjum. Það er engin útvistun, hv. þingmaður.