146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

sala ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum.

88. mál
[16:45]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er leitt að valda hv. þingmanni Óla Birni Kárasyni þeim vonbrigðum sem ég hef augljóslega gert. Hann kallar hér eftir málefnalegri umræðu. Gott og vel. Ég skal verða við þeirri kröfu hans og reyna að taka þátt í henni. En hvert er uppleggið í þeirri málefnalegu umræðu í umræddri tillögu? Hér stendur, með leyfi forseta:

„Með nokkurri einföldun má segja að Íslendingar standi frammi fyrir tveimur kostum. Annars vegar getur ríkið áfram átt fyrirtæki, hús, jarðir og fleira og búið við þungar vaxtagreiðslur á komandi árum með tilheyrandi lakari þjónustu og hærri sköttum. Hins vegar er hægt að selja hluta eigna ríkisins og greiða niður skuldir.“

Þetta er slík einföldun, hv. þingmaður, að manni hálfpartinn blöskrar við að lesa það. Eins og þetta séu einu tvær leiðirnar í því hvernig hægt er að reka ríkissjóð. Það er eiginlega hálf „trist“, svo ég leyfi mér að sletta hér í ræðustól og á þá jafnvel yfir mér vítur forseta eins og hefur gerst á undanförnum dögum, fólk hefur verið vítt fyrir að sletta, að láta eins og þetta séu einu tvær leiðirnar. Annaðhvort eigum við vondu slæmu ríkiseignirnar og erum bundin á klafa skuldabyrðanna eða við seljum þær og allt er gott. Ég hefði alveg verið til í mjög málefnalega umræðu þar sem fjárþörf ríkisins væri rædd. Við getum skoðað skattkerfi síðustu ára, hvernig skattbreytingar síðustu ríkisstjórnar hafa gagnast þeim sem best hafa það, hvernig hægt er að nýta skattkerfi sem tekjujöfnunartæki, hvernig hægt er að skoða eignarhald ríkisins á ákveðnum ríkiseignum og jafnvel með sölu í huga, hvaða áhrif það hefur á notendur þjónustu þeirra ríkiseigna (Forseti hringir.) o.s.frv. En að leggja þetta fram sem málefnalegt innlegg í einhvers konar alltumlykjandi umræðu á einhverjum núllpunkti — það er einfaldlega ekki þannig. Og kvarta svo yfir því að nýfrjálshyggjunni sé mótmælt.