146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

sala ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum.

88. mál
[16:57]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta voru áhugaverð skoðanaskipti sem áttu sér hér stað áðan, það er óhætt að segja það. Það hefði nú ekki átt að koma á óvart að Vinstri græn væru ekki alveg á sömu línu og hv. frummælandi þessa máls, svo vægt sé til orða tekið.

Það sem vekur athygli mína í þessu er að verið er að búa til stofnefnahagsreikning fyrir ríkið. Gert er ráð fyrir því að hann verði birtur í síðasta lagi með ríkisreikningi 2017 og talið að það taki að minnsta kosti þetta ár að vinna þann stofnefnahagsreikning. Þar undir eru jú allar eignir ríkisins, þar með taldir vegir og hvaðeina. Það má svo sem segja að vinnan sé nú þegar hafin við að kortleggja eignir ríkisins. Ég sé að formaður fjárlaganefndar er einn af tillöguflytjendum. Hann veit það þó vel að verið er að vinna þessa vinnu. Maður spyr sig þá: Treysta þeir ekki þeim sem eru í þessum störfum? Hvers vegna telja þeir þá að þeir þurfi að fá einhverja utanaðkomandi aðila í það? Það var nú eiginlega það fyrsta sem vakti athygli mína í þessu efni.

Svo verður að segjast að þegar við horfum á svona umfangsmikla nýfrjálshyggju — ég tek undir með hv. félaga mínum, Kolbeini Óttarssyni Proppé varðandi það að þetta er jú auðvitað ekkert annað en nýfrjálshyggja og kom eiginlega fram hjá Viðskiptaráði á dögunum. Þar kom tillaga um að selja eiginlega allt, með manni og mús nánast. Ég heyrði að hv. þingmaður svaraði því til að sumt yrði aldrei selt. Það er nú gott að við erum sammála um það. Það er alla vega ekki þannig að allt sé falt. En það má svo sem segja að við Íslendingar erum færir í að selja ýmislegt. Við getum til dæmis keypt niðursoðið fjallaloft í minjagripabúð, í einni lundabúðinni, þannig að okkur hefur nú tekist að selja ýmislegt.

Málefnaleg umræða? Jú, á hvers forsendum? Við flest sem eru vinstrisinnaðri í lífinu erum ekki inni á þeirri línu að það sé endilega hagstæðasta og besta leiðin að selja allar ríkiseignir. Við þekkjum söguna. Við seldum Símann, við stöndum frammi fyrir því að þurfa að ljósleiðaravæða hér með miklu dýrari hætti í framhaldinu. Mörg minni sveitarfélög sitja ekki við sama borð og þau stærri. Það átti að byggja Landspítala fyrir símapeningana. Hér er talað um að byggja annan Landspítala, eða byggja upp aðra innviði fyrir það sem yrði selt.

Ég tek undir með hv. þingmanni sem hér var síðast í pontu um að sporin hræða í þessu samhengi. Við getum líka tekið sem dæmi sveitarfélög, eins og Reykjanesbæ, sem féllu í þá gryfju að selja eignir sínar til Reita og leigja svo miklu dýrara. Hvers vegna á það að vera hagkvæmara að selja mikið af húsnæði? Við tölum fyrir því og væri áhugavert að vita hvort þingmaðurinn sé því sammála, að reisa hér á Alþingisreitnum húsnæði fyrir skrifstofur þingsins, því að við teljum það ekki hagkvæmt að leigja húsnæði úti um allar koppagrundir fyrir þingmenn og aðra starfsemi sem þingið þarf að reka.

Varðandi hinar verðmætu fasteignir sem ríkissjóður á þá er ég ekki sannfærð um að það sé skynsamlegt að selja þær. Vissulega kom fram í máli hv. þingmanns að það ætti að vega og meta hvað væri skynsamlegt að selja og hvað ekki. En þá er alltaf spurningin: Skynsemi byggð á forsendum hvers? Og vitna ég þá til orða minna hér áðan um það þegar búið er að selja mjólkurkúna einu sinni og hún er ekki notuð með skynsamlega hætti. Af hverju ætti það þá ekki að gerast aftur? Hvað er það sem hefur breyst?

Við erum líka að tala um allt í eigu ríkisins. Það eru Landsvirkjun og orkuveiturnar. Hér voru bankarnir nefndir, eða fjármálastofnanir. Flugstöðin, það hefur t.d. komið tillaga um að selja hana. Og svo framvegis.

Ég geld alla vega varhuga við því að þingsályktunartillaga sé sett fram í þessum tilgangi. Mér finnst margt í því benda til þess sem forkólfar þessarar ríkisstjórnar hafa talað fyrir, eins og varðandi ferðaþjónustuna, að þar eigi líka bara að selja þannig að eignamenn geti eignast landsvæði og selt aðgang. Það hefur m.a. komið fram hjá núverandi ráðherra, að mig minnir.

Ég tek undir það að þetta er hinn mikli kapítalismi þeirra sem farið hafa með fjármuni landsins allt of lengi og ekki vel. Þegar við hugsum um það hverjir gætu keypt eignirnar komumst við alltaf að sömu niðurstöðu. Það eru þeir sem eiga peningana, sem eru að sölsa undir sig ótrúlega miklar eignir nú þegar. Risastórar eignir eru nú á fárra höndum, sem verður meðal annars til þess að leigumarkaðurinn er eins og hann er. Hér eru keyptar upp heilu blokkirnar og líka byggðar blokkir sem fara beint í leigu, ýmist í gegnum ferðaþjónustuna eða okurleigu, og halda fólki í fjötrum.

Ég veit ekki hvort skattgreiðendur mundu græða eða þá auðmenn landsins. Ég hef eiginlega meiri trú á að auðmenn landsins myndu græða. Ég er hins vegar sammála þeirri sýn þingmannsins að auðvitað eigum við að greiða niður skuldir og draga úr vaxtakostnaði ríkissjóðs. Um það eru flestir sammála því að það er íþyngjandi og ekki gott til framtíðar að skulda. En að það sé gert með því fororði að það sé ekki hægt að gera það nema einvörðungu með sölu ríkiseigna — ég er ekki að segja að við eigum að eiga allar þær fjármálastofnanir um aldur og ævi sem okkur hafa áskotnast. Það þarf örugglega að velja tíma til þess að minnka umfangið því að auðvitað vitum við að fjármálakerfi okkar þarf að minnka frá því sem það nú er. En það er vandmeðfarið. Meðan við tökum að minnsta kosti drjúgan arð út úr þessum fyrirtækjum er engin ástæða til þess að flýta sér í þeirri sölu. Það er að minnsta kosti mín skoðun.

Ég bendi á nálgunina, eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé kom inn á, að það er bara tvennt í boði, annars séum við illa stödd í lífinu, þ.e. ef við seljum ekki búum við við þennan mikla vaxtakostnað. Auðvitað er það ekki svo. Við nálgumst það ekki á sama hátt hvernig við öflum tekna, og fyrir liggur að þessi ríkisstjórn og þingmenn hennar hafa ekki mikinn áhuga á því, hvort sem það er að taka það almennt úr auðlindum sem sanngjarna rentu, eða leggja skatta á þá sem hafa mjög miklar tekjur; nú eða til dæmis að taka betur utan um arðgreiðsluþáttinn hjá þeim sem velja að greiða sér laun með arði eða fjármagnstekjum. Hægt er að afla ríkissjóði tekna á margan annan hátt til þess að greiða hraðar niður skuldir. En svo má heldur ekki gleyma því að það er ekki eina verkefnið okkar. Það er auðvitað líka að byggja upp innviði, sem þessi ríkisstjórn og sú síðasta virðast fara hægt í. En það þarf ekki að gera eingöngu með þessu. Ég geld varhuga við því.

Mér hefur ekki fundist það sýna sig að þeir sem eiga peningana, þeir sem við gjarnan köllum auðmenn, beri einhverja sérstaka umhyggju fyrir ríkinu eða mundu leigja ríkinu eða ríkisstofnunum eða öðrum þeim sem þurfa húsnæði, sem við auðvitað þurfum, eða sameign þjóðarinnar. Ég hef ekki orðið vör við að þeir séu eitthvað almennt að hugsa um hagsmuni skattgreiðenda. Það held ég ekki. Ég held að það sé röng nálgun.

Ég get ekki sagt að ég sé mjög spennt fyrir þessari þingsályktunartillögu. Það er allt í lagi að ná utan um eignirnar, ég ætla ekki að bera á móti því. Ég held að verið sé að vinna að því í ráðuneyti fjármála með því sem ég vitnaði til áðan þannig að ég tel að þetta sé algerlega óþarft. Mér finnst undirliggjandi tónninn hér vera sá (Forseti hringir.) að hér eigum við að selja allt sem við getum mögulega selt því að öðruvísi getum við ekki byggt upp gott samfélag. Því er ég ekki sammála.