146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

sjómannadeilan.

[15:24]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er gott að heyra þann tón sem hæstv. forsætisráðherra gefur hér, að ekki sé útilokað að stjórnvöld ætli að koma að málinu. Það er vissulega talsvert annar tónn en hæstv. sjávarútvegsráðherra og jafnvel hæstv. fjármálaráðherra hafa gefið í skyn. Ég hef reyndar ekki skilið það þegar um er að ræða dagpeninga- eða fæðispeningareglur að þær eigi ekki að gilda almennt til sjómanna eins og annarra þar sem slíkar reglur gilda í öllum löndum í Norður-Atlantshafi, alla vega í Noregi og Færeyjum, en ekki á Íslandi eftir að sjómannaafslátturinn var afnuminn. Það er enginn að tala um að taka hann upp heldur er verið að tala um hvort að stjórnvöld séu tilbúin, eins og hefur komið fram, að búið sé að hefja vinnu við greiningu á tjóni sem verður, annars vegar þjóðhagslegu og hins vegar í einstökum byggðarlögum, eftir m.a. mikinn þrýsting frá atvinnuveganefnd. Þess vegna er ánægjulegt að heyra að fjármálaráðherra útilokar það ekki, en ég velti fyrir mér hvort það sé vandræðagangur í ríkisstjórninni þegar menn lýsa því yfir (Forseti hringir.) afdráttarlaust að þeir ætli ekki að koma að þessu og síðan hefur maður heyrt í einstökum þingmönnum stjórnarinnar sem telja fráleitt að ekki verði komið að því að leysa einhverja stærstu deilu sem hefur verið (Forseti hringir.) uppi í lengstan tíma í einni mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar.