146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

heilsugæslan í landinu.

[14:32]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda fyrir umræðuna því að umræða um heilbrigðiskerfið og heilsugæsluna er að mínu viti gríðarlega þörf. Mér finnst mikilvægt að byrja á því sem útgangspunkti að leggja áherslu á að heilbrigðiskerfið eigi að þjóna öllum óháð efnahag, aðstæðum og búsetu. Ég fagna því að mér heyrðist hæstv. ráðherra einnig leggja áherslu á það.

Það þarf að styrkja heilsugæsluna bæði á höfuðborgarsvæðinu en líka úti um allt land þannig að fólk geti sótt sér grunnþjónustu sem næst heimabyggð. Það heyrist mér við vera nokkuð sammála um. Jafnframt heyrist mér við vera sammála um að efla og auka þurfi þverfaglega nálgun í heilsugæslunni. Það er gott. Ég fagna því ef það eru útgangspunktar sem við getum verið sammála um. Það sem eftir stendur, og er auðvitað hin hliðin á peningnum, er fjármögnunin.

Hæstv. ráðherra lýsti ágætlega í ræðu sinni hvernig fjármögnuninni er háttað núna. Ég saknaði þess að ekkert væri fjallað um hvernig fjármagna ætti aukna þjónustu, vegna þess að ég held að við séum sammála um að það er þörf fyrir aukna þjónustu. Það skiptir grundvallarmáli ef við ætlum að geta uppfyllt það grunnskilyrði sem er að heilbrigðiskerfið á að þjóna öllum óháð efnahag, aðstæðum (Forseti hringir.) og búsetu. Það verður ekki í sundur slitið.