146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

reglur um atvinnuleysisbætur.

[11:33]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég tek undir að það er mjög alvarlegt mál þegar ekki tekst að leysa kjaradeilu og hvað þá þegar verkfall hefur staðið jafn lengi og raun ber vitni í þessari deilu. Það er raunar umhugsunarefni hversu illa gengur að semja á þessu samningssviði, það virðist frekar vera regla en undantekning að það gangi mjög illa að ná saman. Það hljóta báðar hliðar þessarar deilu að taka til skoðunar hjá sér hvað veldur því. Stjórnvöld hafa verið afdráttarlaus í yfirlýsingum hvað þetta varðar, þau hyggjast ekki grípa inn í þessa deilu, og raunar er það svo að þau atriði sem þarna eru um deilt, þ.e. hlutaskiptakerfi sjómanna, eru af þeim toga að það er ekki stjórnvalda að grípa inn í og úrskurða. Það þekki ég frá fyrri störfum að ekki er heppilegt þegar þingheimur fer að blanda sér mjög mikið inn í kjaradeilur, það truflar kjaradeilur yfirleitt mun meira en gagn telst af í umræðunni á þingi. Í öðru lagi, þegar stjórnvöld þurfa í nauð að grípa inn í kjaradeilur verður það að leiða til einhverrar lausnar í deilunni. Þarna virðist sú leið ekki vera fær og hefur raunar komið skýrt fram hjá báðum deiluaðilum að þeir óski eftir því að stjórnvöld grípi ekki inn í deiluna, að svo stöddu í það minnsta.

Varðandi spurningar hv. þingmanns um hvort ég hyggist beita mér fyrir því að lengja bótatímabilið að nýju — nei, ég tel ekki skilyrði í efnahagslífinu nú gefa tilefni til þess. Atvinnuhorfur eru góðar og blessunarlega er fólk mun skemur á bótum að jafnaði en hámarksbótatímabil gefur tilefni til. Við slíkar aðstæður sé ég enga þörf á því að lengja tímabilið. Kemur til að greina að hækka bætur? Við erum auðvitað alltaf að skoða með hvaða hætti bætur fylgja lágmarkskjörum en það hafa ekki verið sett fram nein skýr (Forseti hringir.) tölusett markmið um það. Hvað varðar fæðispeninga og hvort þeir verði skattfrjálsir, þá er það auðvitað í verkahring fjármálaráðherra að kveða úr um það, en yfirlýsingar stjórnvalda hafa líka verið skýrar í þeim efnum.