146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[15:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir frábærar umræður um þetta ágæta mál hingað til. Mig langar að impra aðeins betur á því sem við erum að ræða, þ.e. að standa með tjáningarfrelsinu, að það þarf ekki bara góða lagasetningu til eða að fella úr gildi þau lög sem eru í gildi, heldur einmitt það sem við hv. þingmaður erum að ræða; það er að þola gagnrýni og geta tekið málefnalegri sem og ómálefnalegri gagnrýni án þess að reyna að hamla eða skerða tjáningarfrelsi fólks. Það getur átt sér stað eftir öðrum leiðum en með lagasetningu eða einhvers konar refsiviðurlögum. Í þjóðfélagi okkar eiga sér stað, hef ég tekið eftir, en auðvitað er það kannski verra annars staðar, en samt sem áður er það hér með verra móti svokölluð kælingaráhrif sem Mannréttindadómstóllinn títtnefndur vísar oft í. Sem er þegar t.d. valdamenn í þjóðinni ráðast harkalega gegn þeim sem tjá skoðanir sínar, hóta þeim jafnvel, ræða um loftárásir eða annað slíkt þegar um eðlilegt aðhald fjölmiðla er að ræða. Það eru til alls konar leiðir til þess að hamla tjáningarfrelsi sem eru ekki eingöngu einhvers konar refsilöggjöf eða framfylgd hennar, heldur hvernig við sem höfum völd í þjóðfélaginu bregðumst við þegar okkur er hallmælt eða okkar hagsmunum er hallmælt.

Því vil ég fá hv. þingmann í lið með mér, og sem flesta þingmenn, til að standa vörð um tjáningarfrelsi á fleiri leiðum en einungis í lagasetningu, heldur með því að standa vörð um rétt allra til að tjá sig um okkur og störf okkar nokkurn veginn eins og þeim hentar og það skuli ekki alltaf ráðast á umræðuna þegar er verið að gagnrýna okkur og umbúðirnar, heldur skulum við reyna að einbeita okkur sem best að því að ræða innihaldið.