146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof.

110. mál
[16:50]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Herra forseti. Mig langar til þess að byrja á því að þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir að leggja þetta frumvarp fram. Ég tek heils hugar undir orð hennar áðan varðandi heildræna sýn og möguleikana á að endurskoða heilbrigðiskerfið. Ég tek undir það að allt sé hægt. Þetta er bara spurning um vilja. Hvað viljum við gera?

Þetta mál um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof finnst mér svo sjálfsagt að ég skil ekki að það sé ekki löngu búið að koma þessu í gagnið. Ég skoðaði vef Ljósmæðrafélags Íslands. Samkvæmt honum er ein ljósmóðir á Ísafirði. Sumar konur á sunnanverðum Vestfjörðum sækja fæðingarhjálp þangað. Það er ekki óalgengt að konur þurfi að flytjast þangað í nokkrar vikur og bíða eftir fæðingu í leiguhúsnæði eða búa inni á ættingjum. Það sama á við á Norðurlandi sem er stórt dreifbýlt umdæmi þar sem vegalengdir eru miklar. Þar eru tveir fæðingarstaðir. Á Austurlandi er aðeins ein fæðingardeild.

Konur sem hafa ekki þann valkost að fæða nærri heimilinu sínu þurfa sjálfar að standa straum af þessum kostnaði. Þetta er umtalsverður kostnaður. Þetta er húsnæði og launalaust leyfi maka og ferðalög maka og barna. Það þarf að taka börnin úr skóla. Þetta er alls konar rót á fjölskyldulífinu. Að þurfa að keyra langar vegalengdir og oft yfir fjallvegi til að sækja fæðingarþjónustu, leigja húsnæði, taka börnin úr skóla, missa úr vinnu — þetta er allt saman kostnaðarsamt og skapar mikið óöryggi. Það er erfitt að meta hvenær best er að leggja af stað í ferðalagið, enda er ómögulegt að segja til um hvenær fæðingin muni eiga sér stað. Ég hefði talið það algjört forgangsmál að búa þannig um verðandi mæður að öllu aukaálagi væri haldið í algjöru lágmarki. Þetta skiptir máli fyrir þroska barnsins, öryggi móðurinnar, tilfinningalíf og efnahag fjölskyldunnar. Það að ástandið sé svona yfir höfuð er nægilega slæmt. Það allra minnsta sem við getum gert er að framlengja fæðingarstyrk og fæðingarorlof þessara fjölskyldna.