146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

3. mál
[17:15]
Horfa

Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir hennar andsvar. Greining hefur, samkvæmt minni þekkingu, ekki farið fram. Gert er ráð fyrir þessari viðmiðun, 500–700 nemendur á hvert stöðugildi sálfræðings. Ætli framhaldsskólar séu ekki öðrum hvorum megin við 30 á Íslandi, þegar allt er talið. Sumir þeirra eru auðvitað stórir, aðrir eru minni og fámennari. Hugsanlegt er að þetta gæti orðið hlutastarf, a.m.k. fyrsta kastið, og samvinnuverkefni einhverra framhaldsskóla. Þar sem þetta hefur verið reynt, sérstaklega ef við horfum til reynslu Verkmenntaskólans á Akureyri, hefur reynslan verið mjög jákvæð. Það var stígandi í henni. Það örlaði kannski á óþægindum meðal nemenda til að byrja með, en um leið og menn voru orðnir vanir þessu og lærðu að nýta sér þessa þjónustu þá varð þetta miklu léttara og sálfræðingurinn varð kærkominn nýliði í skólastarfinu.