146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

þátttaka stjórnarflokka í sérstökum umræðum.

[15:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta var mjög sérstakt hér í gær þar sem tveir flokkar tóku ekki þátt í sérstökum umræðum. Þessi dagskrárliður, sérstakar umræður, er að mínu viti gríðarlega mikilvægt tæki sem við höfum á Alþingi til að ræða þau mál sem eru einstökum þingmönnum mikilvæg eða sem brenna á þjóðinni hverju sinni. Þess vegna skiptir rosalega miklu máli að allir pólitískir flokkar taki þátt í umræðunni og komi þar sjónarmiðum sínum á framfæri. Það skiptir hreinlega máli fyrir almenning í landinu að sú umræða eigi sér stað. Það hefur verið mín reynsla hingað til að það sé frekar vandinn hve tíminn er knappur í þessu formi, að tvær mínútur fyrir almenna þingmenn dugi varla til þess að koma sjónarmiðum á framfæri. Ég vona svo sannarlega að við eigum ekki eftir að sjá svona uppákomu endurtaka sig.