146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

þátttaka stjórnarflokka í sérstökum umræðum.

[15:18]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég held að við þurfum bara að byrja að halda þingið á Facebook til að fá einhver svör frá stjórnarmeirihlutanum. Ég held að þvílíkt og annað eins hafi sjaldan gerst. Og að kalla þetta einhverjar mestu fýlupokaumræður um fundarstjórn forseta sem orðið hafi í sögu þingsins — þá hef ég séð það verra þó að ég segi sjálf frá, og er ég bara búin að vera eitt og hálft ár á þingi. Það að bera við málefnaþurrð stjórnarandstöðunnar er hlægilegt í ljósi þess að stjórnarandstaðan er búin að bera uppi þingstörfin fyrstu tvær vikurnar og líka þessa viku. (Gripið fram í.) Við erum að tala um að það komi kannski eitt til tvö, í mesta lagi þrjú eða fjögur, frumvörp frá ríkisstjórninni (Gripið fram í: Magn er ekki sama og gæði.) [Hlátur í þingsal.] og hér er eitt mál sem er leiðrétting út af þeim slælegu vinnubrögðum við höfum séð viðhöfð á Alþingi Íslendinga. Ég frábið mér að það sé málefnaþurrð frá stjórnarandstöðunni. Það þurfa allir að líta í eigin barm og þá sér í lagi hæstv. ríkisstjórn.