146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

störf þingsins.

[15:43]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Í gær fóru hér fram mjög áhugaverðar sérstakar umræður um skýrslur, aflandseignir og skuldaleiðréttingu. Á síðasta kjörtímabili ræddu mjög margir hv. þingmenn gjarnan undir þessum lið, störf þingsins, um að dagskrárliðnum sérstakar umræður mætti gefa meiri gaum í dagskrá þar sem verið væri að kryfja tiltekin mál til mergjar.

Oft beindu ræðumenn orðum sínum til virðulegs forseta um að ræðutíminn væri helst til knappur og vildu fá lengri ræðutíma, eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir kom inn á í umræðu um þetta mál undir liðnum um fundarstjórn.

Ég fékk tækifæri í gær til að taka þátt í umræðu um skýrsluskil um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og hefði gjarnan viljað taka þátt í umræðunni um skýrslu um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána. Það kom mér verulega á óvart að engir fulltrúar tveggja stjórnarflokka, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, sáu sér fært að taka þátt í umræðunni um þessa aðgerð síðustu hæstv. ríkisstjórnar.

En ég ætla að nota tækifærið hér og taka undir með þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni í gær og töluðu fyrir þessari framkvæmd og útlistuðu hversu vel hún heppnaðist og hvers vegna. Aðgerðin var nauðsynleg framkvæmd og útfærsla hennar var vel ígrunduð, úthugsuð og vönduð. Mér fannst umræðan draga það fram. Slík framkvæmd er auðvitað vandasöm og aldrei hægt að draga þannig línu í sandinn að hún verði gallalaus. En það er ekki hægt að deila um þá staðreynd að skuldir heimila hafa lækkað og staða þessarar mikilvægu efnahagseiningar hefur batnað verulega. Ef við metum árangur af þessari aðgerð út frá settum markmiðum er ekki hægt að segja annað en að hún hafi sannarlega verið vel heppnuð og farsæl aðgerð.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna