146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

störf þingsins.

[15:55]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er svo að forgangsmál Sjálfstæðisflokksins eru ríkisstjórnarfrumvörp sem koma frá ráðherrum okkar. Önnur mál sem ekki þykja svo mikilvæg koma frá þingmönnum. Eins og t.d. 65. mál sem er fyrsta þingmannamál frá þingmanni Sjálfstæðisflokksins sem kemst á dagskrá þessa þings. Það er tillaga til þingsályktunar um minningu tveggja alda afmælis Jóns Árnasonar. Tillagan hefur meira að segja verið lögð fram áður. Eins og frumvarpið um frjálsa sölu áfengis. Nú er það svo að ýmislegt í samfélaginu má laga og bæta. Sum mál snerta marga, önnur fáa, sumum finnst smámál stórmál og öðrum finnst stórmál smámál. En hvað þetta tiltekna frumvarp varðar vil ég benda á að þeir þingmenn sem hneykslast hvað mest á því að ríkisstjórnin skuli setja málið í forgang, að Alþingi eigi virkilega að eyða tíma sínum í málið, eru þeir sömu og taka málið hvað oftast upp hér á þinginu. Það eru þeir sem halda málinu hvað mest á lofti. Það eru þeir sem segjast í aðra röndina ekki vilja eyða tíma þingsins í málið en í hina beita þeir öllum brögðum til þess að tefja afgreiðslu þess og koma í veg fyrir að það fái þinglega meðferð. Það er eitthvað skrýtið við slíkan tvískinnung.

Ýmsir þingmenn hafa síðan gert málið að umræðuefni undanfarið sem hlýtur að benda til þess að þeir vilji helst fá það á dagskrá svo hægt sé að ræða það enn betur. Það veitir heldur ekkert af því að ræða málið almennilega og efnislega en ekki með einhverjum upphrópunum því fæstir þingmenn sem hafa tjáð sig um málið að undanförnu virðast hafa lesið staf í frumvarpinu og víla ekki fyrir sér að fara með staðreyndavillur í fjölmiðla.

Frumvarpið er bara eitt af þeim fjölmörgu málum sem eru til umræðu hér á þinginu. Það er ekkert sérstakt forgangsmál. En það er samt prinsippmál og ákveðið framfaramál sem eðlilegt er að nái fram að ganga árið 2017, að mínu mati. En mörg önnur slík mál mætti nefna, eins og t.d. að leyfa blóðgjöf samkynhneigðra karlmanna eða heimila sölu lyfja í almennum verslunum eða brjóta upp ríkisverndaða fákeppni á leigubílamarkaðnum og svo mætti áfram telja.

Frú forseti. Áfengisfrumvarpið svokallaða er ekki mikilvægasta málið sem liggur fyrir Alþingi þessa stundina. En ég er fullviss um að eftir nokkur ár, þegar við rifjum málið upp, verður litið á það sem minnisstæða breytingu (Forseti hringir.) líkt og afnám bjórbannsins og þegar litasjónvarpið var leyft.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna