146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

störf þingsins.

[16:07]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Full ástæða er til að hafa áhyggjur af kynjajafnréttissjónarmiðum í höndum þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Um þau er farið fáum en fögrum orðum í stjórnarsáttmálanum, en við hljótum að kalla eftir aðgerðum. Skemmst er að minnast þess að aðspurð hér í þingsal segist hæstv. dómsmálaráðherra ekki munu beita sér í þágu jafnréttismála, þ.e. hún muni ekki beita sér sérstaklega í því skyni að fjölga konum með markvissum hætti í embætti dómara.

Kynferðisbrot eru staðreynd í íslensku samfélagi. Það er full ástæða til að leggja sérstaka áherslu á þann málaflokk á öllum stigum, hvort sem það er á vettvangi lögreglu, sveitarstjórnar, dómstóla, félagsþjónustu eða heilbrigðisþjónustu. Öryggis- og fræðslumál þurfa að vera í fyrirrúmi hjá sveitarfélögum líka og það er greinilegt að á hverjum einasta degi þurfum við að halda vöku okkar. Á hverjum degi, frú forseti.

Ef við lítum bara til gærdagsins þá birtist léttúðug umræða um stafrænt kynferðisofbeldi í fjölmiðlum þar sem sökinni var skellt á þolendur — það árið 2017.

Ég bendi á umræðu um að kynbundinn launamunur sé ekki fyrir hendi, sem hann ætti auðvitað ekki að vera á árinu 2017, en hann er staðreynd, og staðreynd sem við einhverra hluta vegna þurfum að takast á um.

Og svo náttúrlega það að dómsmálaráðherra telji að ekki þurfi að beita sérstökum aðgerðum til að jafna hlut kynjanna í dómarastétt, að tíminn hljóti að vinna á þeim vanda.

Frú forseti. Ég lýsi eftir skýrri rödd stjórnvalda í þessum málum.


Efnisorð er vísa í ræðuna