146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

matvælaframleiðsla og matvælaöryggi.

[16:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langaði að minnast aðeins á tölur um þau umhverfisáhrif sem kjötrækt hefur. Rannsóknir sýna að hún gefur frá sér 80 til 90% minna af gróðurhúsalofttegundum, notar 99% minna landrými og 82 til 96% minna af vatni en verksmiðjuframleiðsla á dýrum. Þessar tölur eru gríðarlega háar í því ljósi að verksmiðjuframleiðslan er stunduð út um allan heim. Við erum ekki með slíka framleiðslu hér á Íslandi og þar eru gríðarleg tækifæri. Verksmiðjuframleiðslan er gróðrarstía sýklalyfja, hún hverfur og vistvæn framleiðsla kemur í staðinn.

Landbúnaðurinn okkar er mjög vistvæn framleiðsla. Það verður tvímælalaust eftirspurn eftir slíkri framleiðslu þó að aðallega verði um kjötframleiðslu að ræða.

Mig langaði líka til að minnast á orkuöryggi í tengslum við þetta, því að framleiðsla á mat krefst alltaf orku, olíu jafnvel. Við höfum líka tækifæri hér á Íslandi af því að við gætum verið óháð olíu sem orku; við erum ekki komin þangað enn, þannig að það er tvímælalaust hægt að stefna þangað. Við notum t.d. 700 til 800 þús. tonn af olíu í ár, 250 þús. tonn á bifreiðar, um 150 þús. tonn í skipaflotann, þannig að við höfum gríðarleg tækifæri í þessu umhverfi. Ég ætla að spá því að þörf á styrkjum til landbúnaðarkerfisins hverfi, að framleiðslan verði gjörsamlega sjálfbær við þær einstöku (Forseti hringir.) aðstæður sem við höfum í kringum landbúnaðinn. Sjávarútvegurinn, held ég, mundi ekki fara eins vel út úr því.