146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[17:17]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það þýðir eiginlega ekki að segja í einu orðinu að verið sé að leiðrétta mistök og tala svo um að verið sé að breyta lögunum afturvirkt íþyngjandi. Mistök eru mistök. Þetta er með alveg sama hætti og ef það hefði óvart í einhverjum lögum prentast eitt núll eða tvö núll til viðbótar við það sem átti að vera. Við sjáum alveg hvað löggjafinn var að gera. Textinn í ákvæðinu er rangur. Það þarf að leiðrétta hann. Þá snýst það ekki um að fá neinn sérfræðing eitt né neitt, heldur leiðréttum við mistökin. Við erum að gera það. Menn gera það afturvirkt. Líka í Hollandi. Þetta er ekki flókið. Þess vegna er rétt að gera þetta og gera það strax, vegna þess að enginn hafði réttmætar væntingar um eitthvað annað. Við erum ekki að breyta afturvirkt íþyngjandi til einhvers sem átti einhvern rétt, því að rétturinn var ekki fyrir hendi. Þetta voru mistök. Það er kjarni málsins. Ég vil eiginlega vita hvort hv. þm. Halldóra Mogensen, sem ég kallaði óvart Hugrúnu um daginn, sé ekki sammála mér um það. Þetta er mjög einföld lögfræði, bæði á Íslandi og Hollandi.