146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[17:19]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, auðvitað má gagnrýna vinnubrögðin. Það er vont þegar svona mistök gerast, en þau gerast alltaf öðru hvoru. Þetta með að axla ábyrgð — jú, menn eiga að axla ábyrgð. En það gerist ekki með því að greiða 5 milljarða úr sameiginlegum sjóði til fólks sem reiknaði ekki einu sinni með því að fá það, ætlaðist aldrei til þess, reiknaði aldrei með því og hafði engar væntingar um það. Þannig að ábyrgðin getur ekki falist í því að fara að greiða þessa tvo mánuði 5 milljarða úr ríkissjóði. Ég mun aldrei taka þátt í því.

Vissulega er svolítið sérstakt að mistökin í ákvæðinu skuli hafa farið fram hjá svona mörgum. Eina skýringin sem ég kann á því er sú að þetta var aldrei til umfjöllunar, það lá alltaf fyrir að þetta ætti að vera svona. Umsagnirnar snerust ekkert um þetta vegna þess að menn gerðu alltaf ráð fyrir því að greiðslur úr lífeyrissjóðum yrðu dregnar frá, það hefur alltaf verið svoleiðis. Það hefði verið risastór stefnubreyting að hafa þetta eins og það var síðan í ákvæðinu fyrir mistök.

Ég lít á þetta svona, þetta eru bara einföld mistök. Við lögum þau. Lærum af þeim. Það er mjög gott.