146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[17:21]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér mál þar sem við þurfum að leiðrétta mistök sem áttu sér stað við vinnslu frumvarpsins um breytingu á lögum um almannatryggingar, sem varð að lögum um áramótin. Við þurfum að flytja þetta mál og meiri hluti hv. velferðarnefndar gerir það nú.

Mig langar að taka það fram að þetta er vilji löggjafans og vilji löggjafans kemur mjög skýrt fram í greinargerð og öllum umsögnum um málið sem komu til hv. velferðarnefndar síðastliðið haust.

Mig langar einnig að taka það fram í þessari örstuttu ræðu að ekki má gleyma því í umræðunni að málið, þrátt fyrir þessi mistök sem áttu sér stað, fór ekki í gegn með mjög miklum hraða. Það var 2013 sem skipaður var starfshópur til að undirbúa breytingar á lögum um almannatryggingar. Ef ég er með tímalínuna rétta þá voru þessar lagabreytingar í vinnslu í u.þ.b. þrjú ár. Því miður verður einhver ásláttarvilla við skrif frumvarpsins sem á sér stað í velferðarráðuneytinu, síðan fer málið bara í gegnum ferlið í þinginu og þessi villa kemur í ljós í þeirri samkeyrslu sem fer fram á eldri og núverandi lögum. Þá kemur einhver melding upp sem sýnir að þetta sé ekki nákvæmlega eins og það á að vera.

Ég tek undir orð þeirra hv. þingmanna sem hér hafa talað að það sé mikilvægt að kalla til gesti til hv. velferðarnefndar. Ef ég skil stöðuna rétt verður það gert á morgun eða föstudag. Ég mun ekki standa í vegi fyrir því að málið muni ganga til hv. velferðarnefndar. Það er mjög mikilvægt að taka það fram líka að kannski er ástæðan fyrir því að mistökin komu ekki fram jafnvel sú að í engum umsögnum frá umsagnaraðilum var fjallað um þessa grein laganna. Um alla umsagnaraðila, hv. þingmenn og aðra sem komu að málinu má segja að athyglin var ekki þarna heldur var verið að bregðast við þeim athugasemdum sem bárust til nefndarinnar.

Við verðum bara að læra af þessu. Köllum til sérfræðinga og hlutaðeigandi aðila um málið. Tökum efnislega umræðu í hv. velferðarnefnd og tökum síðan ákvörðun hvert fyrir sig um hvað við viljum gera.