146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[17:27]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að svara aðeins hv. þm. Brynjari Níelssyni þar sem ég tel að hann hafi verið að vísa í lagamenntun mína í Hollandi rétt áðan í pontu þar sem hann líkti leiðréttingu á þessum mistökum afturvirkt við það að leiðrétta tvö núll í lagatexta sem óvart hefði farið þar inn. Í því samhengi langar mig að benda á að það er töluvert meira en tvö núll sem fóru úrskeiðis í þessari lagabreytingu. Ef við horfum bara á frumvarpið sem liggur fyrir okkur hér eru breytingar í samtals a.m.k. átta lagagreinum þar sem fimm eða sex orðum er skipt út. Núll hér eða þar er alls ekki aðalatriðið. Þetta er spurning um að borgararnir geti lesið lögin í landinu og vitað hverju þeir eigi von á.

Tekjutrygging er ekki það sama og ellilífeyrir. Það er bara allt annar hlutur. Þetta er ekki spurning um einhvers konar innsláttarvillu. Þetta er greinilega stærra vandamál en það. Svo eru greinilega stærri mistök sem hafa átt sér stað en það að einhver hafi óvart ýtt tvisvar sinnum á núll í staðinn fyrir einu sinni eða hvað það er.

Í því tilfelli sem við erum að ræða núna vitum við að TM fór ekki að lögum. Hún virti vilja löggjafans, en eins og við vitum kannski öll hérna inni gengur vilji löggjafans ekki framar lagaákvæðum, þ.e. greinargerðir ganga ekki framar lagaákvæðum.

Í þetta skiptið heyrum við á þingi að Tryggingamiðstöðin hafi ekki farið að lögum við úthlutun, að löggjafinn gerði mistök, að Tryggingamiðstöðin gerði mistök og að núna sé ætlunin að breiða yfir þessi mistök löggjafans með því að setja afturvirk lög án þess að færa nokkur rök fyrir því af hverju það sé í samræmi við stjórnarskrá og það sé í lagi. Mér finnst einhvern veginn eins og það eigi bara að renna því í gegn, virðulegi forseti, að þessi lög skuli sett afturvirkt. Enga rökfærslu er að finna í greinargerðinni með þessu frumvarpi um það hvers vegna lögin eru sett afturvirkt. Það kemur bara fram að lögin skuli sett afturvirkt.

Framsögumaður málsins er ekki með á hreinu að það sé ekkert bara „A-OK“ að setja afturvirk lög og þurfi einhvers konar rökstuðning fyrir því af hverju við setjum lög afturvirkt tvo mánuði aftur í tímann. Engar röksemdafærslur er að finna fyrir því í greinargerð málsins. Ég hef verulegar áhyggjur af allri afturvirkri lagasetningu sem ekki eru einu sinni færð rök fyrir af því að það er alltaf alvarlegt inngrip þegar löggjafinn ákveður að setja lög aftur í tímann. Við virðumst ekki eiga í erfiðleikum með að ákveða ívilnandi lagasetningar fyrir þingmenn og ýmsa aðra afturvirkt, en þegar kemur að réttindum ellilífeyrisþega ætlum við að hafa það í nokkurs konar neðanmálsgrein að við kjósum að taka af þeim ívilnandi undantekningar sem er að finna í núgildandi lögum og hafa ekki verið virtar af Tryggingamiðstöðinni.

Við höfum heyrt að það kosti okkur 5 milljarða. Mögulega ættu þetta bara að vera dýrkeypt mistök sem standa vörð um réttarríkið okkar.