146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

heildstæð stefna í málefnum einstaklinga með heilabilun.

62. mál
[19:26]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir framsöguna og leggja fram þetta mál. Ég kem ekki beinlínis upp í andsvar, heldur frekar hróssvar. Ég vildi bara segja að það verður gagnlegt að fá þetta mál til hv. velferðarnefndar Alþingis, en ég og hv. þm. Guðjón S. Brjánsson eigum bæði sæti í nefndinni. Þar verður málið tekið til efnislegrar meðferðar.

Eins og hv. þingmaður kom inn á fjallar málið um að fela heilbrigðisráðherra að móta stefnu í málefnum einstaklinga með heilabilun sem feli í sér vitundarvakningu og fræðslu til almennings og aðstandenda og aukna áherslu á miðlæga skráningu, markvissar rannsóknir og átak til umönnunar fyrir ört stækkandi sjúklingahóp í samfélaginu. Þetta er einstaklega mikilvæg tillaga því að eins og fram kemur í greinargerðinni er skráning einstaklinga með heilabilun mjög brotakennd á Íslandi. Það eru bara til áætlanir um fjölda fólks með þennan sjúkdóm. Síðan kemur fram í greinargerðinni að Ísland er eitt örfárra Evrópuríkja og eina norræna ríkið sem ekki hefur mótað heildarstefnu í þessum málefnum.

Ég vil ljúka þessari innkomu minni í málið með því að segja að það er mjög mikilvægt að fá málið til vinnslu nefndarinnar og kalla eftir upplýsingum um hvers vegna staðan er þessi hér á landi. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi fengið einhverjar upplýsingar um málið hvers vegna staðan sé þessi og hvers vegna ekki sé komið fram með aðgerðir í málinu.