146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

kostnaður við ný krabbameinslyf.

[11:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Svar Bjartrar framtíðar fyrir kosningar er ekki síður sett fram út frá þeirri stöðu sem var þekkt, að krabbameinssjúklingar hafa þurft að taka mjög þátt í kostnaði við sína meðferð og hafa jafnvel verið að greiða hundruð þúsunda og upp undir milljón, og yfir milljón í einhverjum tilfellum. Þarna erum við líka að vísa til þeirra breytinga sem verða með greiðsluþátttökukerfinu sem var samþykkt fyrir kosningar og er verið að taka í notkun í maí en þar verður sett þak á heildarkostnað.

Þegar kemur að lyfjum er kostnaður fyrirliggjandi vandamál, og sérstaklega S-merkt sjúkrahúslyf, sem eru sérstaklega lyf vegna krabbameinslækninga, en hann hefur ítrekað farið fram úr áætlun. Við erum auðvitað bundin, eins og aðrir málaflokkar, af fjárlögum sem Alþingi Íslendinga hefur samþykkt og samþykkti fyrir árið 2017 núna í desember.

Ég hef sérstaklega lagt það fram fyrir ríkisstjórn að staðan sé alvarleg og að bæta þurfi í málaflokkinn til að geta staðið við skuldbindingar og til að geta staðið við innleiðingu nýrra og nauðsynlegra lyfja. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að fela mér og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að reyna að vinna úr þeirri stöðu.