146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

jafnréttisákvæði í frumvarpi um dómstóla.

[14:13]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar að leggja orð í belg því að ég hef sannast sagna orðið fyrir töluverðum vonbrigðum við að hlusta á skýringar hv. formanns allsherjar- og menntamálanefndar. Jafnréttislög hafa verið hér við lýði í það minnsta síðan 2008. Það hefur þó ekki breytt því að enn hallar á annað kynið þegar kemur að veitingum í embætti og áhrifastöður. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur sérstaklega kveðið á um jafnréttismál í stjórnarsáttmála sínum. Á hátíðarstundum veifar hún stjórnarsáttmálunum og segist í hvívetna ætla að berjast fyrir jafnrétti. Þegar kemur svo að því að sýna það í verki, ekki bara með einhverjum táknrænum orðum sem skipta kannski engu þegar til kastanna kemur, og lögbinda þau skýru fyrirmæli til ráðherra þá heykist hún á verkefninu.