146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:59]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég held ekki að einokun ríkisins tryggi út af fyrir sig nein lýðheilsufræðileg markmið, eiginlega ekki með neinum hætti. Við sjáum það meira að segja í núverandi starfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins að sú trygging er ekki fyrir hendi. Að mörgu leyti hefur þessi ríkiseinokunarverslun gert áfengið sýnilegra, gert það þokkalegra. Hún stendur fyrir ákveðnu markaðsstarfi þó að hún standi ekki fyrir beinum auglýsingum; hreykir sér af því hvað þetta er orðinn mikill partur af matarmenningu og þar fram eftir götunum. Nei, ég held að það sé engin trygging fyrir þessum lýðheilsufræðilegu markmiðum að ríkið reki verslanirnar. Minnsta mögulega breytingin er sú að ekkert annað gerist en að ríkið hætti að eiga þessar verslanir og einhver annar ætti þær. En ég held líka (Forseti hringir.) að það sé hægt að tryggja þetta með öðrum hætti þó að vín færi í matvöruverslanir.