146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:14]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir andsvarið. Mitt svar við spurningu hennar er jú, ég er sammála því að þegar lögð eru fram frumvörp þurfi að liggja fyrir kostnaðarmat. Það hefur einmitt komið fram í máli nokkurra annarra hv. þingmanna í umræðum um þetta frumvarp. Eins og hv. þingmaður benti á er margvíslegur beinn kostnaður sem hlýst af því að breyta lögum um verslun með áfengi og tóbak og þess að auka aðgengið. Sá kostnaður felst meðal annars í auknu álagi á heilbrigðiskerfið og heilbrigðisstarfsfólk, fjölgun veikindadaga og svo framvegis. Það væri að sjálfsögðu mjög áhugavert ef einhvers konar vísir að kostnaðarmati fylgdi slíku frumvarpi. Eins og ég benti á í andsvari áðan við hv. þm. Viktor Orra Valgarðsson er það með öllu óskiljanlegt og eiginlega mjög mikil mótsögn að segja það fullum fetum að ríkinu sé ekki treystandi til þess að höndla með og selja áfengi en krefjast þess samt á sama tíma að ríkið og þar með við öll tökum á okkur þær auknu fjárhagslegu byrðar sem hljótast af því að leyfa frjálsa sölu á áfengi. Mér finnst það mjög ábyrgðarlaust að ekki fylgi hér kostnaðarmat því að ef við tölum bara um beinan fjárhagslegan kostnað þá er hann gríðarlega mikill vegna heilsutjóns og heilsufarsvandamála sem hljótast af þessu.