146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að vera á svipuðum nótum og hér hefur verið og tala aðeins um störf þingsins. Mig langar að byrja á því að nefna þegar þingmenn fóru í vikunni í pontu undir liðnum um fundarstjórn forseta og ræddu þar ákveðið málefni. Það vantaði að þeirra mati fulltrúa frá einstökum flokkum í sérstakar umræður sem fóru fram í þinginu. Það hefði farið ágætlega á því í því tilfelli að athugasemdirnar kæmu fram hjá þingflokksformönnum og við það hefði verið látið sitja en hingað röðuðust upp þingmenn, a.m.k. tugur ef ekki nærri tveir, sem hömruðu á sama málinu. Viðbrögðin í þjóðfélaginu urðu auðvitað á einn og sama veg og ég var margoft spurður að því hvort sama ruglið væri byrjað aftur. Ég vona að við þingmenn nýtum þennan lið ekki mjög óhóflega.

Ég tek líka undir það varðandi umræður um áfengisfrumvarpið, þetta óheppilega frumvarp, þegar þingmenn tala um að tíma þingsins sé mjög illa eytt í að vera að koma með það fram. Samt raðast inn þingmenn, hver á fætur öðrum, tala um þetta mál, út og suður, fara í andsvör og lengja tíma þingsins eins og kostur er og leyfa þessu eins og ég segi óheppilega frumvarpi ekki að fá sína eðlilegu þinglegu meðferð. Við hljótum að þurfa það. Ég er andstæðingur frumvarpsins en við þurfum auðvitað að leyfa málinu að ganga fram. Það verður náttúrlega að vera í þessu máli eins og öðrum, málið verður að komast til nefndar og síðan verður þingið að fá að segja skoðun sína á því. Ég verð eins og hver annar þingmaður að beygja mig undir það.

En við skulum vera sammála um það að störf þingsins séu mikilvæg, að þau gangi vel og hratt fyrir sig og við hjálpum öll til þess.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna