146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Húsnæðismál hafa í áranna rás verið ær og kýr jafnaðarmanna. Á þessu sviði ríkir nú ófremdarástand. Erfiðast er það á höfuðborgarsvæðinu en líka á landsbyggðinni þar sem menn veigra sér við að byggja vegna kostnaðar og óvissu í endursölu. Verðgildi er tvísýnt. Á þessu vilja jafnaðarmenn ráða bót.

Fréttablaðið greinir frá því í fréttaskýringu í dag að bæði bankastofnanir og Íbúðalánasjóður séu virkir leikendur á þessu sviði á landsbyggðinni og skilji mörg svæði eftir í eins konar úlfakreppu, séu ekki lausnamiðaðir í framgöngu sinni og gæti þröngra hagsmuna og stundum er efi uppi um að svæðisbundnir langtímahagsmunir séu hafðir í fyrirrúmi. Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, bendir á þá ljósu staðreynd að þar sem erfitt sé að selja íbúðir þori fólk ekki að kaupa, það sé ofboðslega mikil eftirspurn eftir leiguhúsnæði á þessum svæðum og ekki sé jafn mikill munur á leiguverði á mörgum minni stöðum þar sem húsnæðisverð er afar lágt samanborið við leiguverð á höfuðborgarsvæðinu. Á mörgum stöðum úti á landi hefur verið uppgangur í atvinnulífi og fólksfjölgun, sem dæmi á Raufarhöfn og í Bíldudal. Erfitt sé að komast að samningum við bankastofnanir og Íbúðalánasjóð sem setji afar ósanngjörn og stíf viðmið.

Þarna er um að ræða opinberar stofnanir í stærstum mæli sem virðast ekki veita heimamönnum þá þjónustu sem kemur til móts við þarfir byggðarlaga. Ég bendi á sérkennilega framgöngu Íbúðalánasjóðs við sölu eigna á mörgum stöðum á landinu þar sem þær hafa lent í höndum fasteignafélaga þar sem það þykir arðvænlegt en á öðrum jaðarsvæðum er eignunum haldið í notkunarleysi þar sem dæmi má finna um að þær liggja undir skemmdum og rýrna enn að verðgildi. Þetta ástand rennur landsbyggðarfólki til rifja sem krefst þess að hagsmuna almennings sé betur gætt að þessu leyti.


Efnisorð er vísa í ræðuna