146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[11:10]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsögu hennar og samstarfið í nefndinni þótt ekki hafi okkur auðnast að landa sameiginlegri niðurstöðu, sem mér þykir mjög miður í máli sem er jafn mikilvægt og það að koma á nýju millidómstigi, þeirri gríðarlegu réttarbót fyrir borgara sem Landsréttur er. Ég er sammála því að nauðsynlegt sé að endurskoða fyrirkomulag við skipun dómara frá því sem er í lögunum, en þegar við horfum til þess að nú eigi að skipa 15 dómara, sem munu væntanlega flestir sitja í einhverja áratugi, þætti mér líka eðlilegt að við vönduðum vel til verka, við þessa fyrstu skipun. Þess vegna þykir mér gott að heyra hv. þingmann segja að henni þyki skýrt að jafnréttislög gildi þegar hæfnisröðun er lokið. En ég vil ganga lengra og bendi á að í frumvarpinu, sem hér liggur fyrir, er skýr heimild ráðherra til að bregða algjörlega frá hæfnisröðuninni og kalla til hæfa umsækjendur, svo lengi sem þeir hafi verið metnir hæfir samkvæmt 21. gr. laganna. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hún líti svo á að ráðherra væri að bregðast skyldum sínum gagnvart þessu nýja mikilvæga dómstigi, gagnvart framþróun dómskerfisins, ef ráðherrann kæmi ekki með 15 einstaklinga til okkar þar sem kynjahlutföll eru jöfn.