146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[11:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni einnig fyrir gott samstarf í nefndinni og hlakka til þess áfram þó að við hefðum öll kosið að geta tekið þetta mál út í sátt eða saman.

Ég vil kannski árétta það að það er búið að koma dómstiginu sjálfu á fót. Það er ekki gert með þessu frumvarpi. En ég held að ráðherra væri ekki að bregðast skyldum sínum ef ekki yrði um að ræða nákvæmlega jafnt hlutfall karla og kvenna sem er auðvitað líka erfitt í 15 manna hópi. Ég held að hún muni líta til jafnréttissjónarmiða þegar, eins og sagt hefur verið, nefndin sem metur hæfni hefur skilað af sér og komið með fleiri en tvo einstaklinga, sem maður býst við.

Auðvitað vonar maður að umsóknir verði fjölmargar og að hún horfi til jafnréttissjónarmiða þegar að því kemur að val hennar skiptir máli, þ.e. þegar fleiri en tveir eru taldir jafn hæfir, sem líklega gerist í svona afskaplega stórum hóp.