146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[11:54]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. framsögumanni minnihlutaálitsins fyrir mjög góða yfirferð á áliti minnihlutans í þessu máli og okkar skoðunum sem fram hafa komið í meðförum nefndarinnar og einnig í þessum þingsal við meðferð málsins. Til umræðu er breyting á lögum um dómstóla, nánar tiltekið að nefnd um hæfni dómaraefna skuli einnig fjalla um skipun dómara við Landsrétt, þennan nýja dómstól sem verið er að setja á fót þar sem við munum bráðum hafa úr að moða 15 nýjum dómurum til að vernda réttarríkið á Íslandi.

Allsherjar- og menntamálanefnd sem hefur haft málið til meðferðar er ekki einhuga um lyktir málsins. Því er fyrsta málið sem allsherjar- og menntamálanefnd afgreiðir eftir myndun ríkisstjórnarinnar tekið út í ósætti, þrátt fyrir að nefndarmenn virðist í öllum meginatriðum vera sammála um þrætuefnið, þ.e. að við stofnun heils nýs dómstigs verði að vera tryggt að ráðherra fari að jafnréttislögum við skipun dómara í dómstólinn. En fjölbreytni verður að vera við skipun dómara, þá sérstaklega með tilliti til jafns hlutfalls karla og kvenna, til að tryggja gildi réttarríkisins okkar sem best, réttarríkis sem á Íslandi stendur veikum fótum.

Frú forseti. Það er viðeigandi að ræða réttarríki í dag þegar endurupptökunefnd um svokölluð Guðmundar- og Geirfinnsmál hefur fyrir stuttu úrskurðað að taka skuli upp dóm Hæstaréttar gegn Tryggva Rúnari Leifssyni að nýju sem sakfelldur var fyrir morðið á Guðmundi Einarssyni. Úrskurðurinn lofar góðu fyrir réttarríkið og vekur upp von um að mál annarra sakborninga í þessu smánarmáli í íslenskri réttarfarssögu verði tekið upp að nýju.

Sem stendur er engin kona starfandi í Hæstarétti. Það er alvitað í lögfræðinni sem og annars staðar að dómarar eru líklegir til að dæma þeim í hag sem líkjast þeim helst og dæma þeim í óhag sem líkjast þeim minnst. Ætli Guðmundar- og Geirfinnsmálið sé ekki einmitt akkúrat ágætisdæmi um það að ríkir, miðaldra, efristéttarkarlar voru til í að dæma nokkur saklaus ungmenni í fangelsi til margra ára eftir staðfestar pyndingar. Það lýsir því ágætlega að dómarar rétt eins og aðrir hafa fordóma. Og að fjölbreytni í dómstólum sé eitt af því mikilvægasta við skipun dómara og eitt af því mikilvægasta sem beri að tryggja til þess að réttarríkið virki sem best og sem mest fyrir alla hlutaðeigandi, þ.e. að allir skuli jafnir fyrir lögum. Því að ef dómstólar landsins eru einungis skipaðir einsleitum hópi mun sá einsleiti hópur sem þeir dómarar samsvara sig við bera af þegar kemur að því hvernig réttarríkið kemur fram við þá, meðan aðrir munu hljóta verri meðferð í réttarríkinu.

Skortur á fjölbreytni í réttarríkinu verður einmitt til þess að réttarríkið gildir ekki fyrir alla og það hljóta ekki allir sanngjarna málsmeðferð og ekki verða allir jafnir fyrir lögum. Réttarríkið á Íslandi er ungt og óreynt og gerir mistök. Eins og við sjáum við skipun dómara í Hæstarétt, í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, og í fjöldamörgum öðrum málum þar sem hægt er að hugsa sér að fordómar og gildismat dómara hafi haft áhrif á niðurstöðu máls og hafi og hefði verið önnur ef dómstóllinn hefði verið skipaður fjölbreyttari aðilum en þá var.

Þess vegna er svo mikilvægt að taka þetta fram. Taka fram í þessum lögum að tryggja beri að fjölbreytni verði. Og að fjölbreytnin verði höfð að leiðarljósi við skipun í þennan dómstól, því að ekki er öruggt að jafnréttislögin muni leiða val hæstv. dómsmálaráðherra við skipun í dómstólinn. Dómsmálaráðherra sem hefur haldið því fram að hún trúi ekki á lagasetningu sem beri að tryggja jafnan hlut karla og kvenna í atvinnulífinu, trúi ekki á slíka lagasetningu, eins og það sé einhvers konar biblía sem maður getur valið hvort maður trúi eða ekki, frekar en bara lögin í landinu. Þess vegna viljum við geirnegla það að ráðherra sé algerlega ljóst að henni beri að fylgja jafnréttislögum við skipun dómara í þennan dómstól. Eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom inn á áðan eru þetta 15 nýir dómarar sem við munum skipa og það skiptir öllu máli að þeir endurspegli fjölbreytni mannlífsins á Íslandi og að við tryggjum réttarríkið með þau sjónarmið í huga að hlutfall karla og kvenna í Landsrétti verði sem jafnast.

Við erum að tala um bráðabirgðaákvæði sem er ætlað að tryggja það að við rennum betri stoðum undir réttarríkið á Íslandi. Því tek ég heils hugar undir með minni hluta nefndarinnar og nefndarmönnum í allsherjar- og menntamálanefnd, að breytingartillaga minni hlutans í þessu máli verði samþykkt.