146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[12:17]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú var ég að vísa til orða … (HKF: Nei, þú spurðir mig um ráðherra.)— Já, já, ég ... (Gripið fram í.) — Ég skal bara klára. Ég var að vísa til orða samflokksmanns hv. þingmanns, hv. þm. Jóns Steindórs Valdimarssonar, þar sem hann spurði ráðherra sérstaklega hvort hún teldi ekki tilefni til þess að setja inn í lög sérstök ákvæði sem myndu gulltryggja þetta, eins og minni hlutinn leggur til í þessu tilfelli.

Því vil ég spyrja hv. þingmann: Er hún þá ósammála samflokksmanni sínum um það mat, að það sé tilefni til þess að gera það?

Eins vil ég árétta það sem fram kom í seinna andsvari hv. þingmanns við hv. þm. Andrés Inga Jónsson um mat hennar á því hver ágreiningurinn væri, hvað það væri sem minni hlutinn í nefndinni væri að leggja til, að ákvæðinu sem við leggjum til er alls ekki ætlað að þrengja val dómsmálaráðherra á nokkurn hátt heldur er einungis verið að ítreka að lögin í landinu gildi. Rétt eins og í núverandi lögum um dómstóla, bara á öðrum stað, leggjum við til að hið sama gildi hér þannig að við getum gulltryggt að lögunum í landinu, jafnréttislögum, verði fylgt. Ágreiningurinn er í raun bara um hvort bæta eigi inn í lögin einhvers konar tryggingu um að jafnréttissjónarmiðum verði fylgt við skipan í þennan nýja dómstól.

Því spyr ég hv. þingmann: Breytist afstaða hennar eitthvað við að heyra að ekki sé verið að takmarka getu ráðherra til þess að velja hæfa umsækjendur? Er hún þá ósammála orðum hv. þm. Jóns Steindórs Valdimarssonar um að tilefni sé til að setja í lögin sérstakt ákvæði um kynjasjónarmið?