146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu.

177. mál
[17:04]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans hér og langar að spyrja hann út í það sem hann nefndi reyndar í örstuttu máli í framsöguræðu sinni, þ.e. sem lýtur að sjálfbærri þróun og að það sé eitt af því sem hér er tiltekið. Ég sé að í 10. kafla er einmitt fjallað um viðskipti og sjálfbæra þróun þar sem fram kemur að efnahagsleg þróun, félagsleg þróun og umhverfisvernd séu sjálfstæðir þættir sem styðji með gagnkvæmum hætti við sjálfbæra þróun. Mér finnst að okkur sem tökum þátt í stjórnmálum á 21. öld beri skylda til að velta fyrir okkur hlutum eins og sjálfbærri þróun, en ekki síður loftslagsmálum og loftslagsbreytingum.

Mig langar að eiga aðeins orðastað við hæstv. ráðherra um það og þetta samspil, að hluta til almennt, ég vil nota tækifærið vegna þess að hér er verið að tala um fullgildingu á fríverslunarsamningi við fjarlægt ríki. Ég held að við þurfum alltaf að hugsa um þessi mál. Það er rétt að Georgía er ekki öflugt efnahagsveldi og hægt er að styrkja stöðu ríkja með viðskiptum. En við þurfum líka að hugsa um vistsporið sem hlýst af flutningi vara ríkja á milli.

Mig langar þess vegna að spyrja: Hefur eitthvað verið rætt um hvort það eigi bara að auka almennt viðskipti (Forseti hringir.) á milli EFTA-ríkjanna og Georgíu eða á að líta sérstaklega á þær vörur sem skortur er á í þessum ríkjum og er þess vegna nauðsynlegt að flytja á milli ríkjanna, en er ekki bara þannig að það geti (Forseti hringir.) verið efnahagslega gott fyrir einhverja aðila í ríkjunum?