146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu.

177. mál
[17:18]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu sína. Mig langar að spyrja hann aðeins nánar út í nokkur atriði. Í fylgiskjali með fríverslunarsamningnum er tekið fram að Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss muni árétta þá skuldbindingu sína að styðja við lýðræði, réttarreglur og mannfrelsi í samræmi við skyldur sínar að þjóðarétti, m.a. eins og fram kemur í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu sömu stofnunar.

Mig langar til þess að heyra hugmyndir hans um nákvæmlega hvernig þessi fríverslunarsamningur muni stuðla að og styðja við lýðræði, réttarreglur og mannfrelsi nú þegar út er komin ný skýrsla Human Rights Watch-mannréttindasamtakanna. Þar kemur m.a. fram að alþjóðaglæpadómstóllinn heimilaði saksóknara sínum í janúar á síðastliðnu ári að fara í rannsókn á stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni á tímum styrjaldar á milli Rússlands og Georgíu 2008. Í febrúar síðastliðnum gaf sérstakur ráðgjafi Sameinuðu þjóðanna varðandi ofbeldi gegn konum út mjög svarta skýrslu þar sem fram kom að alvarlega hátt hlutfall er í landinu varðandi ofbeldi gegn konum. Sömuleiðis gáfu ein fremstu mannréttindasamtök í Georgíu, samtök ungra georgískra lögfræðinga, út skýrslu á síðasta ári sem sýndi fram á að útbreiddar eru pyndingar á borgunum af hálfu yfirvalda sem aldrei hafa verið rannsakaðar. Þarna eiga sér stað mannréttindabrot og ég hef mikinn hug á því að heyra hæstv. utanríkisráðherra og hugmyndir hans um hvernig Ísland getur stigið þarna inn með þessum fríverslunarsamningi. Þó svo að ástandið hafi e.t.v. batnað eitthvað síðastliðin ár í Georgíu er þarna um að ræða ástand í landi þar sem mannréttindi borgaranna eru fótum troðin. Mig langar að heyra hugmyndir hæstv. ráðherra um hvernig Ísland getur komið þarna að.