146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

lækkun virðisaukaskatts á gleraugum og linsum.

105. mál
[16:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég get svarað hv. þingmanni og málshefjanda því að ég er þeirrar skoðunar að það sé heppilegra að það sé eitt virðisaukaskattsþrep. Ég get ímyndað mér að þá væri það einhvers staðar á milli 18 og 19%. Þegar hv. þingmaður talar um að lægra virðisaukaskattsþrepið sé matarskattur lýsir það því óvenjulega viðhorfi að það eina sem fólk noti sé matur. Það sýndi sig í fyrra eða hittiðfyrra, þegar virðisaukaskattskerfinu var breytt, að almenn útgjöld heimilanna jukust ekki vegna þess, þó svo að matarútgjöldin hafi hækkað voru önnur útgjöld sem lækkuðu á móti. Venjulegt fólk nýtir ýmiss konar vöru.

Það er vissulega rétt að það getur verið þungbært fyrir ákveðnar fjölskyldur að vera með gleraugu. Eins og hér kom fram hefur ríkið þar ákveðna möguleika til að koma til móts við þá sem verst eiga í því og jafnframt hef ég minnt á að stéttarfélög veita víðtæka styrki þeim sem þar eru. Þetta er áhugaverð umræða en ég hygg hins vegar að það sé rétt að virðisaukaskattskerfið sé ekki það besta til að ná árangri í þessu. Hér var bent á að gleraugu gætu kostað um það bil 100 þús. kr. og það væru mjög miklir peningar og jafnvel óyfirstíganlegt fyrir suma. Það yrði líka væntanlega óyfirstíganlegt ef þau kostuðu 88 þús. kr. og yrði mörgum mjög erfitt. Það eitt myndi ekki leysa vandann.