146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

endurskoðun samgönguáætlunar.

92. mál
[18:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um vandræðaganginn í sambandi við samgönguáætlun á síðasta kjörtímabili. Það er einstætt í sögunni að þeirri ríkisstjórn entist ekki aldur til heilt kjörtímabil að koma í gegn einni einustu samgönguáætlun fyrr en undir blálokin þegar þegar hafði verið boðað til kosninga. Því miður er áfram uppi óvissa í þessum efnum því að þrátt fyrir að samgönguáætlun, sem að lokum var samþykkt, horfðist í augu við fjárveitingar til málaflokksins tókst ekki betur til en svo að skömmu síðar kom fram fjárlagafrumvarp frá hæstv. núverandi forsætisráðherra, þáverandi fjármálaráðherra, sem lét eins og þessi samgönguáætlun væri ekki til. Alþingi reyndi að bæta úr eða lágmarka skaðann með viðbótarfjárveitingum inn í fjárlögin í desembermánuði, en engu að síður er áfram uppi misræmi. Þá kemur spurningin: Hvernig á að fara með það mál? Að því lúta spurningar mínar til hæstv. ráðherra.

Nærtækast og fyrst er auðvitað að spyrja: Hyggst hæstv. samgönguráðherra og núverandi ríkisstjórn beita sér fyrir því að auka með fjáraukalögum fjárheimildir til vegagerðar þannig að unnt sé að framkvæma samgönguáætlun án þess að hún raskist? Ef ekki og jafnvel hvort sem heldur er, hyggst hæstv. ráðherra leggja fyrir Alþingi nýja endurskoðaða samgönguáætlun hvað vegamálin snertir fyrir árið 2017 þannig að á nýjan leik verði þá borið undir Alþingi hvernig þessum fjármunum verður forgangsraðað?

Verði það ekki gert eða hvorugt gert, hvernig á þá að fara með málið? Á hvaða lögum eða stjórnvaldsheimildum ætlar ráðherra þá að byggja val sitt á þeim verkefnum sem fá framgang og sem fá hann ekki? Það getur ekki verið svo að það sé í geðþóttavaldi ráðherrans þó að misræmi sé milli fjárlaga og samgönguáætlunar að gjörbreyta þeirri forgangsröðun sem Alþingi hefur samþykkt og gengið frá í samræmi við lög um samgönguáætlun og vegalög.

Það gegnir öðru máli að þegar ríkisstjórnir hafa með fjáraukalögum aukið fjárveitingar til framkvæmda þannig að ný verkefni hafa komist inn, hefur þó mátt gagnrýna það. En þegar þetta snýst við getur það ekki verið svo að sumar framkvæmdir sem Alþingi hafði sett í forgang verði skornar niður við trog en aðrar fái framgang að fullu. Við þingmenn Norðausturkjördæmis heyrðum á ferðum okkar um kjördæmið að langstærsta einstaka nýframkvæmdin og nánast sú eina á norðursvæði, Dettifossvegur, væri strikuð út með öllu, framkvæmd upp á 800 millj. kr. samkvæmt samgönguáætlun, á sama tíma og aðrar framkvæmdir annars staðar í landinu, t.d. nær hæstv. ráðherra eigi að fá framgang að fullu. Það myndast ekkert slíkt geðþóttavald hjá hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) þótt minni fjármunir séu (Forseti hringir.) í fjárlögum en eru í samgönguáætlun til þess að kollvarpa þeirri framkvæmdaröðun sem Alþingi hefur ákveðið.

Spurningarnar eru því skýrar: Kemur ný tillaga frá ráðherra? (Forseti hringir.) Ef ekki hvernig hyggst hann þá fara með málið?