146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

störf þingsins.

[13:30]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Í störfum þingsins í dag langar mig að eiga orðastað við hv. þm. Brynjar Níelsson, formann hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, um viðhorf hans og ummæli er varða hin svokölluðu Guðmundar- og Geirfinnsmál. Í grein sem hv. þingmaður ritaði árið 2011 undir yfirskriftinni „Varðmenn réttlætisins“ stóð, með leyfi forseta:

„Í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum hafa engin ný gögn komið fram sem breytt geta sönnunarmatinu í málunum. Það hefur því enga þýðingu að endurupptaka málin og innanríkisráðherra getur ekki ákveðið það að óbreyttum lögum. Það hefur enn minni þýðingu að skipa rannsóknarnefnd til að meta hvort ákærðu hafi verið ranglega sakfelldir.“

Í annarri grein sama ár ritaði þingmaðurinn, með leyfi forseta:

„Hins vegar er allt tal um dómsmorð, illvirki dómara, þvinganir og harðræði lögreglu í því skyni að fá fram játningar í Guðmundar-og Geirfinnsmálinu ekkert annað en aðdróttanir sem ekki verður séð að fái stuðning í gögnum málsins.“

Í ljósi þeirra umfangsmiklu gagna sem fram hafa komið í þessu máli frá því að hv. þingmaður lét þessi orð falla um langvarandi pyndingar og illa meðferð á sakborningum ásamt ítrekuðum brotum á málsmeðferðarréttindum þeirra vil ég spyrja hv. þingmann hvort honum þyki þessi ummæli sín eldast vel. Og ef svo er vil ég spyrja hv. þingmann út í afstöðu hans gagnvart orðum sem samflokksmaður hv. þingmanns, Davíð Oddsson, lét falla í ræðustól Alþingis í kjölfar þess að Hæstiréttur hafnaði endurupptökubeiðni Sævars Ciesielskis árið 1997 en hann sagði, með leyfi forseta:

„Ég segi það fyrir mig persónulega að mér urðu mikil vonbrigði að Hæstiréttur skyldi ekki séð sig geta haft lagaskilyrði til að taka Geirfinnsmálið upp á nýjan leik. Ég hef fyrir mitt leyti kynnt mér þetta mál rækilega í gegnum tíðina og tel að þar hafi mönnum orðið á í messu í stórkostlegum mæli á nánast öllum stigum málsins. […] Það var ekki aðeins eitt dómsmorð framið á allri þessari vegferð, þau voru mörg dómsmorðin sem framin voru á þessari vegferð allri og það er mjög erfitt fyrir okkur að búa við það.“

Ég spyr hv. þingmann: Þykja honum þessi orð fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins hafa elst illa? (Forseti hringir.) Og ef svo er að hv. þingmanni þyki orð sín eldast vel og orð Davíðs Oddssonar illa, hvaða rök hann færi fyrir þeirri afstöðu sinni í ljósi alls ofangreinds.


Efnisorð er vísa í ræðuna