146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

áfengisfrumvarp.

160. mál
[17:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Spurning þingmannsins er tvíþætt eins og kom fram í máli hennar undir lok ræðunnar. Annars vegar er spurt hvort ráðherra telji að áfengisfrumvarpið, 106. mál fyrir þinginu núna, samræmist heilbrigðisstefnu ríkisstjórnarinnar og hins vegar hvort sá sem hér stendur styðji frumvarpið.

Frumvarpið sem er núna komið fram er að mörgu leyti keimlíkt frumvarpi sem hefur oft komið fram áður, a.m.k. þau ár sem sá sem hér stendur hefur setið á þingi, og í þeim tilvikum þegar málið hefur farið áfram hefur afstaða til þess á svipaðan hátt og núna skipst í tvær fylkingar, skulum við segja, með og á móti, í samfélaginu og líka inni á þingi, og þegar kemur að umsögnum eins og hv. þingmaður benti svo ágætlega á áðan.

Ég tel að það sé mikilvægt fyrir mig sem heilbrigðisráðherra að fara aðeins yfir málið út frá því hvernig frumvarpið lítur út núna, þ.e. frumvarpið áður en tekið hefur verið tillit til umsagna og mögulega gerðar breytingar á frumvarpinu eins og voru gerðar síðast og ég held líka þarseinast þegar svipað frumvarp kom fram, þar sem gerðar voru veigamiklar grundvallarbreytingar á frumvarpinu. Það hefur áhrif á afstöðu mína gagnvart því. Ég hef sagt opinberlega að ég telji eðlilegt að frumvarpið, fyrst það er komið fram, fái þinglega meðferð, það fái umsagnir, bæði frá almenningi, heilbrigðis- og félagsþjónustu, líka frá aðilum í verslun og þjónustu o.s.frv. og að við sjáum hvernig frumvarpinu vindur fram áður en maður gefur upp endanlega afstöðu til þess.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstök áhersla lögð á að dregið skuli til framtíðar úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir allt samfélagið með því að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu. Í sáttmálanum er einnig tekið fram að mótuð verði heilbrigðisstefna sem samhæfir og treystir heilbrigðisþjónustuna, bætir lýðheilsu og stuðlar að heilbrigði landsmanna.

Það er nokkuð ljóst að stóraukið aðgengi að áfengi getur ekki samræmst stefnu um lýðheilsu.

Í samþykktri stefnu frá lokum ársins 2013 í áfengis- og vímuvörnum sem gildir til ársins 2020 er fyrsta yfirmarkmið stefnunnar að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum. Í þessari tiltölulega nýju stefnu er tekið fram að ein mikilvægasta aðgerðin til að draga úr skaðlegum áhrifum og vandamálum tengdum neyslu áfengis og annarra vímugjafa sé að takmarka aðgengi.

Um aðgengi vil ég benda á að aðgengi snýst ekki bara um aðgengi í efnislegu tilliti, aðgengi í verslunum, hversu víða áfengi sé til sölu eða hversu stutt sé á milli verslana, aðgengi snýst líka um sýnileika, auglýsingar, opnunartíma, aldurstakmarkanir og hvernig þeim er fylgt eftir og kannski ekki síst verðlagið. Þess vegna finnst mér mikilvægt að benda á inn í þessa umræðu að það er athyglisvert að Íslandi hefur á eftirtektarverðan hátt tekist að ná góðum árangri varðandi það að minnka áfengisneyslu barna og ungmenna á sama tíma og verslanaaðgengi hefur aukist. Þetta hefur gerst með góðum og samstiga skrefum í forvörnum, en líka stýringu þegar kemur að kostnaði og öðru slíku.

Ég tel afar mikilvægt að umræðan miðist við þessi lýðheilsusjónarmið, að þau byggist á áreiðanlegum niðurstöðum rannsókna um árangursríkar leiðir til að takmarka aðgengi.

Ég veit að þetta er dálítið ruglingslegt svar en ég hlakka til þess að eiga í góðri umræðu hérna og kem síðan betur inn á málin í seinni ræðu minni.