146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

staða fanga.

[14:42]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir umræðuna og ráðherra fyrir svörin. Það er ekki allt einfalt í þessari umræðu. Hér takast á ólík sjónarmið refsinga annars vegar og betrunar hins vegar. Hér er líka stórra spurninga spurt um ýmis úrræði sem föngum standa til boða eða ættu að standa til boða. Ég er sammála málshefjanda að viðhorfsbreyting í málefnum fanga þarf að koma til og leggja ætti miklu meiri áherslu á betrun.

Í ríkisstjórnarsáttmálanum er sérstaklega tekið fram að til að draga úr endurkomutíðni í fangelsi skal horft til betrunar við stefnumótun í málaflokknum. Við þurfum að gera betur bæði í afplánun og eftir að afplánun lýkur.

Ég vil í þessu stutta innleggi koma inn á að ég tek undir þær áhyggjur að það vantar upp á heilbrigðisþjónustu í fangelsum landsins, rétt eins og utan fangelsa.

Út frá betrun vil ég líka koma inn á menntun í fangelsum. Við ættum að styrkja það val meðal fanga þar sem menntun er einn mikilvægasti þáttur í viðleitni þeirra til að draga úr ítrekunartíðni afbrota. Meðferðarúrræðin þurfa að vera fjölbreytt. Að mínu mati þurfum við að fara í gagngera endurskoðun á fangelsiskerfinu með skýrri betrunarstefnu, rétt eins og norsk stjórnvöld hafa gert með góðum árangri. Fangelsisvist er ekki bara refsing. Hún getur líka verið tækifæri fólks til að snúa við blaðinu og byggja líf sitt upp að nýju. Markmið afplánunar þarf að vera skýrt og vísa fram á veginn og tryggja farsæla endurkomu út í samfélagið.