146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

störf þingsins.

[15:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Líkt og nokkrir hv. þingmenn hafa komið inn á í ræðum sínum í dag er í dag, 8. mars, alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Konur halda víða um heiminn upp á þennan dag og Ísland er engin undantekning. Hér síðdegis, eftir klukkutíma, verður baráttufundur ýmissa félagasamtaka í Iðnó þar sem þemað í ár er hinn vaxandi þjóðernisfasismi og bakslag í réttindabaráttu kvenna og minnihlutahópa.

Mig langar að setja þetta í samhengi við stöðuna í alþjóðamálum í dag en ríkisstjórn Trumps forseta Bandaríkjanna kynnti nú á dögunum sitt fyrsta fjárlagafrumvarp þar sem var gert ráð fyrir miklum niðurskurði til fjölmargra málaflokka, einkum þó þróunaraðstoðar og umhverfismála. Þetta eru hvort tveggja málaflokkar sem vitað er og viðurkennt að hafa sérstaklega mikil áhrif á konur, sér í lagi í hinum fátækari ríkjum heims.

Á sama tíma er hins vegar gert ráð fyrir sögulegri aukningu í framlögum til hernaðarmála. Aukningum sem gætu komið af stað nýju vígbúnaðarkapphlaupi. Bandaríkjamenn gera einnig kröfur til bandalagsríkja sinna í NATO um að þar leggi menn einnig til aukna fjármuni til hernaðarmála. Á vef utanríkisráðuneytisins kemur fram að hæstv. utanríkisráðherra Íslands hafi á öryggisráðstefnu á Grand hótel talað fyrir auknum framlögum Íslands til öryggis- og varnarmála. Hins vegar vitum við að framlög okkar til þróunarsamvinnu hafa staðið í stað (Forseti hringir.) sem hlutfall af landsframleiðslu í mörg ár. Mér finnst rétt að benda á þetta í tilefni dagsins vegna þess að utanríkispólitík er svo sannarlega líka kynjapólitík.