146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

fríverslunarsamningar.

[15:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Komið hefur verið inn á ýmislegt í þessari sérstöku umræðu um fríverslunarsamninga. Ég held að það sé alveg ljóst að viðskipti á milli landa eru síður en svo að fara að leggjast af og eru jafnvel að aukast. Þess vegna langar mig að draga inn í umræðuna þátt sem ekki hefur verið fjallað um hingað til af neinu viti, en það eru loftslagsáhrif fríverslunarsamninga.

Ég var að skoða bandaríska skýrslu stofnunar, Institute for Agriculture and Trade Policy, frá árinu 2016 þar sem einmitt er fjallað um umhverfisáhrif fríverslunarsamninga. Þar er bent á að Parísarsamkomulagið er alveg þögult þegar kemur að því að fjalla um loftslagsáhrif af fjárfestinga- eða fríverslunarsamningum. Þar er hins vegar líka bent á að á árinu 2008, og það er nú orðið talsvert langt síðan árið 2008 var og má ímynda sér að fríverslun hafi frekar aukist en hitt frá því ári, hafi teymi rannsakenda áætlað að fjórðungur þáverandi losunar gróðurhúsalofttegunda tengdist verslunar- og þjónustusamningum. Það er stóralvarlegt mál.

Mig langar því að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hefur utanríkisráðuneytið látið meta loftslagsáhrifin af þeim fríverslunarsamningum sem Ísland er aðili að eða beitt sér fyrir því að slíkt verði gert á vettvangi EFTA? Ef svo er ekki vil ég beina því til hæstv. ráðherra að taka það líka inn í jöfnuna þegar verið er að hugsa um hagkvæmni fríverslunarsamninga (Forseti hringir.) því að það er það sem pólitík 21. aldar kallar á.