146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

áherslur í skipulagi haf- og strandsvæða.

[15:39]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. ráðherra. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra umhverfismála fyrir að taka þátt í þessari umræðu og taka málið á dagskrá. Eins og fram hefur komið ræðum við hér um skipulag haf- og strandsvæða.

Vegna aukinnar ásóknar í nytjar á haf- og strandsvæðum er málið orðið allverulega aðkallandi. Menn standa frammi fyrir flóknum úrlausnarefnum og mörgum spurningum er ósvarað þegar kemur að nýtingu þessarar auðlindar og skipulagi svæða. Kveikjan að þessari umræðu eru viðbrögð ýmissa sveitarstjórna við frumvarpsdrögum sem eru í umsagnarferli og spurningar sem varpað hefur verið fram. Málið á sér nokkra forsögu sem eðlilegt er um svo viðamikið verkefni.

Árið 2011 lét þáverandi ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðar vinna úttekt á þágildandi lögum og reglum um framkvæmdir og athafnir með ströndum landsins og í efnahagslögsögunni. Með útgefinni landsskipulagsstefnu hafa komið út greinargerðir um stöðu haf- og strandsvæðaskipulags. Þá hefur verið unnin mikilvæg vinna við skilgreiningu hugtaka og skráningu auðlinda. Öll sú vinna færir okkur nær því marki að koma málum í gott horf.

En allt samtal er af hinu góða og mikilvægt er að við hér séum upplýst um stöðuna og hugsanlegan framgang.

Með frumvarpi um skipulag haf- og strandsvæða er stigið nýtt skref þar sem ekki er fyrir hendi löggjöf um skipulagningu á þessum svæðum. Lögð er áhersla á fjölbreytta nýtingu sem byggist á heildarsýn, vistkerfanálgun, náttúruvernd og sjálfbærri þróun. Það er gott.

Þá er lagt til að ráðherra skipi svæðisráð með fulltrúum viðkomandi ráðuneyta, aðliggjandi sveitarfélaga og sambandi íslenskra sveitarfélaga og að svæðisráðið beri ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulagsins á viðkomandi strandsvæði. Skipulagsstofnun er ætlað ákveðið hlutverk við framkvæmd laganna, m.a. að annast gerð strandsvæðisskipulags í umboði svæðisráða. Við þessi atriði hafa vaknað spurningar um hvort það sé ekki óþarfaflækjustig. Er ekki markvissara að þessi mál heyri beint undir sveitarstjórnir líkt og skipulagsmál á landi? Er samfella í því að treysta sveitarstjórnum fyrir að skipuleggja allt á landi en ekki á sjó?

Vegna vaxandi umsvifa á strandsvæðum, svo sem vegna fiskeldis og efnistöku, taka menn undir þau sjónarmið að brýnt sé að skipulagsskylda haf- og strandsvæða utan netalagna verði bundin í lög. En skipulagslög frá 2010 taka eingöngu til skipulagsáætlana innan lögsagnarumdæma sveitarfélaga sem afmarkast nú af ytri mörkum netlaga. Þá leggja sveitarstjórnarmenn áherslu á mikilvægi þess að skipulagslöggjöf gangi ekki á hefðbundið forræði sveitarfélaga í skipulagsmálum, því að eins og menn vita endurspeglar aðalskipulag í samspili við deiliskipulag vilja samfélagsins og framtíðarsýn gagnvart landnotkun og framtíðarþróun. Að hafa þetta vald á forræði sveitarfélaga tryggir að stjórnvaldsfyrirmæli skipulagsáætlana byggja á lýðræðislegum grunni sveitarstjórna.

Með beinum og óbeinum hætti eru strandsvæði ásamt innfjörðum og flóum hluti af skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Ætla má að mikið óhagræði og árekstrar milli ólíkra hagsmuna geti orðið verði þessi svæði slitin úr samhengi, jafnvel svo að þau grundvallarmarkmið skipulagslöggjafar sem stuðla að nýtingu og verndun auðlinda á sjálfbærum grunni í þágu efnahagslegrar uppbyggingar og félagslegrar velferðar verði fyrir borð borin.

Því til stuðnings vil ég nefna eyðifjörð austur á landi þar sem skipulagt hefur verið göngusvæði og unnið með hugmyndir um þjónustu við ferðamenn sem byggir á því að fjörðurinn er í eyði. Þar hefur verið sótt um leyfi til að setja niður sjókvíar. Þarna stangast á ólík sjónarmið og ólíkir hagsmunir. Tillögur frumvarpsdraganna ganga gegn þeirri meginreglu að efla skuli staðbundið vald og ákvarðanatöku með tilliti til almannahagsmuna og skynsamlegrar meðferðar opinberra fjármuna. Þróun undanfarinna ára hefur verið í þá átt að æ fleiri verkefni hafa verið færð yfir til sveitarfélaga frá ríki. Því eru fulltrúar sveitarstjórna víða um land undrandi á því að við allt annan tón kveður í skipulagsmálum. Málaflokkurinn er meðal mikilvægustu kjarnaverkefna sveitarfélaga sem flest hverfist um í raun.

Ég spyr: Hver telur ráðherra að sé best til þess fallinn að hafa skipulagsvald yfir haf- og strandsvæðum? Hver eru viðhorf ráðherra til þess að sömu lög gildi um skipulag sveitarfélaga á landi og í fjörðum? Og að lokum: Hve langt er eðlilegt að það vald nái?