146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[16:31]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fordæmi eru þekkt frá öðrum löndum um að framlög tengist því að einhverju leyti að sveitarfélög, eða þeir sem fara með skipulagsvaldið, hugi að framboði á húsnæði og tryggi nægt framboð af lóðum. Það þarf lóðir hvort sem verið er að byggja séreignarhúsnæði eða leiguhúsnæði, húsnæði fyrir samvinnufélög eða atvinnuhúsnæði. Jafnframt þarf að tryggja að skipulagsferlið sjálft taki ekki of langan tíma, en það er hins vegar málaflokkur sem heyrir ekki undir hæstv. ráðherra.

Ég þakka fyrir að ráðherra skuli segja hér skýrt, og ég vona að nefndarmenn hlusti eftir því, að hann leggist ekki gegn því að það verði hugsanlega tengt gerð húsnæðisáætlana. Mér skilst að félagsmálaráðherra sé að huga að því að koma með frumvarp þar sem lagaskylda sveitarfélaga til að gera húsnæðisáætlanir er skýrð.

Hér er verið að leggja til að í staðinn fyrir að fjármunum sé úthlutað samkvæmt almennum reglum laga um úthlutun úr jöfnunarsjóði verði horft á álagt útsvar. Þá fara væntanlega auknir fjármunir til þéttbýlissvæðanna, til þeirra svæða þar sem húsnæðisskortur er mestur. Ég tel því mjög mikilvægt, ef við ætlum að afgreiða þessar breytingar, að það liggi skýrt fyrir frá Alþingi að við viljum tryggja að sveitarfélögin mæti þeirri þörf og geri áætlanir í samræmi við þarfir íbúanna varðandi framboð á húsnæði.